144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sagt að við leysum ekki kjaradeilurnar hér, það hafa m.a. hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sagt, en svo kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að samþykkt málsins sem liggur fyrir sé grundvöllur þess að samningar náist. Það er kannski enn eitt deilumálið á ríkisstjórnarheimilinu að menn tala ekki saman. Eins og var rakið hér er þetta aðeins þvættingur.

Það er auðvitað ekki boðlegt að hæstv. forsætisráðherra komist upp með það að segja ósatt. Hann á að standa fyrir máli sínu og væri æskilegt að hann gerði það áður en við höldum áfram með þetta mál.

Það er líka vert að vitna í það sem kom fram í kvöldfréttum RÚV þar sem núverandi ríkissáttasemjari, til fjölmargra ára, segir að samningar séu ekki reikningsdæmi nema að hluta til, þeir snúist líka um það sem þykir sanngjarnt að niðurstaðan verði og um það sé tekist á núna: „Ég held að það sé heilmikil ólga í samfélaginu. Við sjáum átök hér um fjölmörg málefni, ekki bara um kaupið heldur um ýmis önnur atriði í samfélaginu. Það er skipting auðlindanna, arðurinn af auðlindum, hvernig á að skipta því.“

Virðulegi forseti. Þetta er það sem við eigum (Forseti hringir.) að vera að ræða og reyna að leysa, hinn (Forseti hringir.) risastóra vanda sem blasir við úti í (Forseti hringir.) samfélaginu. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson getur dæst á hliðarlínunni eins og honum sýnist, en þetta er það sem þarf að gera.