144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili hélt ég margar ræður um þetta og ég hef heyrt hv. þingmann flytja margar góðar ræður líka. Það verður að sjálfsögðu að tryggja stjórnarandstöðunni einhvern rétt, en stjórnarandstaðan verður að fara vel með þann rétt. Hún verður að virða það að hér er meiri hluti. Það verður að vera þannig og það er þannig í öllum lýðræðisríkjum.

Ég held reyndar að það tæki sem hefur verið beitt sé vonlaust, ég hef haldið margar ræður og bent á það. Ég held að miklu betra sé að tiltekinn hluti þingmanna geti vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og viðgengst annars staðar á Norðurlöndunum, frekar en að menn noti allar glufur í þingsköpum til að skapa sér einhverja stöðu í stjórnarandstöðu. Ég held að það mundi vera mjög gott, það hefur reynst vel annars staðar á Norðurlöndunum, svipurinn eða blærinn á þingunum er einhvern veginn (Forseti hringir.) allt annar og menn reyna miklu fyrr að ná saman. Eins og hér eru menn ekki alltaf sammála og þá náttúrlega bara greiða þeir atkvæði.