144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef verið hér í allnokkur ár og þykist þekkja alveg þennan leik sem við erum núna þátttakendur í, þ.e. við spyrjum hversu lengi þingfundur á að standa. Svo hefst eitthvert taugastríð þar sem þeim spurningum er ekki svarað og allt er þetta réttlætt með því að svona hafi þetta alltaf verið. Alltaf er þetta réttlætt með því sama. Ég er með mjög einfalda spurningu: Hvað ætlar frú forseti eða forsetaembættið á Alþingi að halda þessum fundi lengi áfram? Það væri þá brotið í blað ef við fengjum svör við svona einföldum spurningum. En ég er farin að hallast að því að Alþingi Íslendinga ráði mjög illa við breytingar. Það er alltaf vísað til þess að breyta þurfi þingskapalögum. Það væri ágætt ef fyrsta skrefið yrði að svara svona spurningum. (Gripið fram í: Setja það í lög.) Við þurfum ekki að setja það í lög, við getum bara ákveðið að gera það, það er hægur vandi, frú forseti. Ég ítreka því spurningu mína og vænti þess að fá svar.