144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka virðulegum forseta kærlega fyrir svarið. Ég ætlaði að koma hér upp með frekar meinlega ræðu um að ég mundi ekki velja þennan forseta í Gettu betur-lið því að hún kysi að svara ekki spurningum. En þó að hún hafi tekið sér umhugsunartíma er komið skýrt svar og ég þakka forseta kærlega fyrir það. Það ítrekar auðvitað hversu undarlegt það er. Ég er nú alltaf að tala fyrir því að við hlustum á fagaðila og eitt af því sem fagaðilar segja er að Íslendingar sofi of lítið og að svefnleysi geti valdið vondum ákvörðunum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að svefnleysi hefur líka áhrif á gæði ræðna, ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er mér kannski ósammála, ég sé það á svip hans að hann hugsar sitt. (Gripið fram í.) En ég hef í þeim rannsóknum sem ég hef stundað á þessum vinnustað undanfarin átta ár tekið eftir markvissri hnignun ræðna eftir að komið er fram yfir miðnætti. Ég velti því fyrir mér hvort við ættum ekki að fara að taka þær rannsóknir saman, það gæti kannski haft jákvæð áhrif á þingstörfin og fundarstjórn forseta, frú forseti.