144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og heiðarlega ræðu. Ég var ein eyru að hlusta á málflutning hv. þingmanns vegna þess að mig langar virkilega að reyna að skilja hvernig þetta mál lítur út af sjónarhóli meirihlutaþingmanns. Mér fannst ég ná einhverjum smáskilningi eftir að hafa hlustað á ræðuna. Spurningar vöknuðu líka. Nú efast ég ekki um að hv. þingmaður meinar það alveg þegar hann segir að hann vilji að þetta ferli sé allt faglegt og ákvarðanir séu teknar á faglegum grundvelli en formið sé hins vegar óskýrt. Það má taka undir það að formið sé óskýrt á einhvern hátt. Í lögunum segir í sjálfu sér ekki hvernig meðhöndlun þingsins eigi að vera, en það segir þó í lögunum hvaða aðili á að taka að sér að flokka kostina, það er verkefnisstjórnin. Það má því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því grundvallaratriði.

Svo er ég að velta fyrir mér, ef við erum farin að segja að það sé einhver galli á forminu, hvort það leiði til þess að við séum í þeirri stöðu að í rauninni eigi að fara að setja virkjunarkosti í nýtingarflokk vegna þess að menn hafi fundið glufu í lögunum. Ég hefði aldrei haft ímyndunarafl í það í allri þessari umræðu um rammaáætlun að einhvern tímann kæmi svona breytingartillaga frá þingmanni þar sem hann mundi bara skella fleiri virkjunarkostum í nýtingarflokk. Út af fyrir sig má ímynda sér fleiri glufur. Menn geta lagt fram sérstakt þingmál, frumvarp, um að virkja og farið algjörlega fram hjá rammaáætlun. Er það góð staða? Í rauninni ætti ég að orða spurninguna svona til hv. þingmanns: (Forseti hringir.) Ef farið væri í þessar virkjanir á grundvelli þessarar breytingartillögu, yrði hv. þingmaður stoltur af því, (Forseti hringir.) í ljósi allra sinna faglegu krafna, að hafa staðið að því hér í þinginu?