144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[01:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum að nálgast einhvern sameiginlegan skilning. Ef við erum sammála um það að byggja eigi á faglegu mati þá erum við með löggjöf sem segir hvernig það faglega mat á að fara fram. Mér heyrist ég og hv. þingmaður vera sammála því að það sé ekki góður bragur að því að reyna að koma virkjunum í gegn með því að nýta sér einhverjar mögulegar glufur í regluumhverfinu, sem mér finnst verið að gera. Ég kalla það lögbrot en það er hægt að kalla það einhverjum öðrum nöfnum.

Ég hjó líka eftir einu í máli hv. þingmanns. Hann notaði orðalagið að virkjunarkostir færu of seint í virkjunarferli. Ég veit ekki hvort það var af ásettu ráði að þingmaðurinn valdi það orðalag, en það fékk mig til að hugsa hvort ákveðin varúðarsjónarmið séu jafn mikilvæg í huga þingmannsins og þau eru í mínum huga, þ.e. að náttúran njóti vafans og það sé í rauninni ekki of seint að virkja neitt og að það sé munur á því að setja eitthvað í bið vegna þess að það þarf frekari upplýsingar — það (Forseti hringir.) var það sem gerðist á síðasta kjörtímabili — og hins vegar því að setja eitthvað í nýtingarflokk (Forseti hringir.) út af tilfallandi ástæðum vegna þess að það liggur á því út af kjarasamningum eða einhverju slíku sem hefur reyndar (Forseti hringir.) verið hrakið.

Á ekki náttúran að njóta vafans? Eigum við ekki að gæta varúðarsjónarmiða?