144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að horfast í augu við það að í minnisblaðinu frá 27. nóvember segir umhverfisráðuneytið að Skrokkalda hafi ekki fengið meðferð hjá verkefnisstjórn. Þar segir að verkefnisstjórn fjallaði ekki efnislega um Skrokköldu. Það er því mat ráðuneytisins að lögin geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta. Skýrara verður það ekki. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og meiri hluti nefndarinnar getur ekki sett sig í eitthvert dómarasæti yfir ráðuneytinu og túlkun ráðuneytisins á gildandi lögum. Það er ekki þannig. Þá verður hv. þingmaður leggja fram lagabreytingartillögu og breyta lögunum. Það er verið að slátra gullgæsinni með því að tefla í tvísýnu lögbundnu ferli sem tryggir hámarksverð fyrir orkuna, tryggir að við getum selt hana sem græna orku. Það er verið að bjóða hættunni heim með því að ráðast í stórkarlalegar (Forseti hringir.) framkvæmdir án efnislegrar greiningar. Það er hin stóra atlaga að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar sem hv. þingmaður og félagar hans í meiri hlutanum standa að.