144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:21]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því enn og aftur að þingmenn vilja ræða önnur mál og ég hef sagt það áður að þá þurfum við bara að klára þessa umræðu sem fyrst svo við getum farið að takast á við önnur mikilsverð mál sem hér eru til umfjöllunar í þinginu. Ég er algjörlega sammála því. Þá er náttúrlega um að gera að rétta fram sáttarhönd og athuga hvort menn nái ekki saman. Er það ekki það sem við þurfum að gera? Það er alla vega leiðin til þess að klára það, það er alveg ljóst.

Ég var að reikna það út af því ég setti mig aftur á mælendaskrá að ég er sautjándi á mælendaskrá núna og miðað við ganginn í þinginu eins og hann er búinn að vera síðustu vikuna gæti ég trúað því að ég komist að í annarri viku héðan í frá, (Gripið fram í: Þriðju) já, í þriðju viku héðan í frá. En það er þá ekki mikill vilji til þess að komast í þau mál sem skipta svo miklu máli í þinginu. (Gripið fram í: Allir hafa … ) Ég ætla bara að vera í þessari röð. Ég ætla að sjá hvað það tekur langan tíma. En vinnum að sáttinni.