144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt verið einn af þeim sem vöktu athygli á því sem ég er hræddur um að sé að gerast hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn, þ.e. að mikil óeining sé á milli stjórnarflokkanna. Það er mikill vandræðagangur á ríkisstjórninni. Hvað gerist þá? Þá fara menn að semja um hver fær hvað í valdabaráttu um framhaldið. Það er versta tegund stjórnmála, þegar hrossakaupin byrja, þegar ákveðið er: Ég skal gera þetta ef ég fæ þetta í staðinn.

Varðandi skólastjóraráðin þá hef ég sagt: Það er skylda okkar sem stýrum stofnunum að lesa í umhverfið og hindra árekstrana, þ.e. að búa ekki til átök heldur hindra þau. Það er að vita hvað maður býður. Stundum er það þannig að ef maður á erfitt með ákveðna einstaklinga getur undirbúningur undir það sem fram undan er hindrað að viðkomandi lendi í útistöðum við yfirvöld. En ef út í óefni er komið, þá er spurningin hvernig menn leysa úr í því.

Ég held að ég hafi komið með tillögu sem er hógvær: Föllumst þá á það sem kom inn í þingið frá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Er það til of mikils mælst? Það er skelfilegt ef við förum að samþykkja eitthvað frá núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi umhverfisráðherra, það væri alveg skelfilegt, eða hvað? Eftirgjöf af hálfu stjórnarandstöðu.