144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður heldur áfram að takast á við hið ómögulega og telur að það sé á hennar færi að sameina viðhorf mitt og hv. þm. Ögmundar Jónassonar til eignarréttarins. Það held ég verði aldrei, en ég virði samt sem áður skoðanir hans sem sameignarsinna. En þar að auki velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki á rangri hillu því í sínu góða svari áðan virtist hún ekki geta slitið sig frá sálfræðilegum analýsum sem hún hóf hér réttilega á verðugum viðfangsefnum sem drepið er hist og her um salinn og vildi gera því skóna að það væru líka einhvers konar sálfræðilegar ástæður á bak við það að ég varpaði fram spurningum um einkaeignarréttinn, hún taldi sem sagt að ég væri að reyna að búa til einhvers konar sálfræðilega spennu millum hennar og hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það kæmi mér aldrei til hugar.

Ég lít hins vegar svo á að frá sjónarhóli fríhyggjumanna eins og margir sjálfstæðismenn eru, og ég hallast að sumu í þeirra hugsun gagnvart þessu, sé ekki hægt að verja það að taka eignarnámi land vegna þess að einhver (Forseti hringir.) tvö fyrirtæki á markaði geri samning sín á milli. Það verða að vera þjóðhagslegar brýnar ástæður til þess.