144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:20]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka tillitssemina og get ekki annað en lagt drengskap minn að veði fyrir því að ég bankaði í borðið og bað um orðið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fagna því að við skulum vera hér í málefnalegri umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar, sem ég dreg ekki í efa að hún þekkir býsna vel, þetta gagn hér, séu í raun ekki eina áætlunin sem hefur hlotið hið lögformlega ferli með fullskipuðum faghópum og tekið alla virkjunarkostina gjörsamlega eftir lögunum — hvort hún sé ekki sammála mér í því að þessi gögn séu í fullu gildi. Síðan er verkefnisstjórn 3. áfanga, sem vinnur fyrir næstu áætlun, beðin um flýtimeðferð á nokkrum kostum sem hún telur sig reyndar ekki alveg geta fullnægt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að meiri hluti atvinnuveganefndar sé í fullum rétti til þess að taka eitthvert mark á þessari skýrslu, eða hvort hún sé orðin marklaust plagg.