144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér áfram um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, Hvammsvirkjun, sem er 244. mál, þingsályktunartillaga umhverfis- og auðlindaráðherra. Það er framhald síðari umræðu sem hér fer fram.

Það er mikilvægt og raunar nauðsynlegt að gera feril málsins hér á Alþingi að nokkru umtalsefni í fyrstu ræðu minni um málið. Um þingsályktunartillögu er að ræða og umræðurnar um málið eru því einungis tvær. Þetta er því síðasta umræðan um málið. Að lokinni þessari umræðu verður gengið til atkvæða. Þetta tel ég nauðsynlegt að taka fram því að í umræðunni, og þá reyndar sérstaklega framan af, bar talsvert á því að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hefðu hreinlega ekki áttað sig á því hvar málið væri statt og gerðu því tillögur um að málið gengi til nefndar að umræðunni lokinni, sem væri mjög gott ef hægt væri.

Í upphaflegri þingsályktunartillögu, sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra mælti fyrir, var lagt til að Hvammsvirkjun færðist úr biðflokki í nýtingarflokk. Það var hins vegar talsvert áhugavert að málið gekk ekki til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að fyrri umr. lokinni, líkt og ég hygg að flestir hefðu undir venjulegum kringumstæðum talið eðlilegast, heldur fór það til hv. atvinnuveganefndar. Það var þá sem segja má að þær deilur sem staðið hafa um þetta mál hafi hafist.

Við vinnslu nefndarinnar brá svo við að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar, undir formennsku hv. þm. Jóns Gunnarssonar, gerði umfangsmiklar breytingar á hinni upphaflegu tillögu og raunar svo miklar að þeirri sem hér stendur finnst alla vega erfitt að sjá hvernig halda megi því fram að um sama mál sé að ræða, heldur sé hér í raun komið fram allt annað mál.

Breytingartillagan, sem hv. atvinnuveganefnd hefur lagt til, er sú að til viðbótar við Hvammsvirkjun færist fjórir aðrir virkjunarkostir í nýtingarflokk, þ.e. Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Þessi breytingartillaga hefur — líkt og íslenskri þjóð ætti að vera orðið nokkuð ljóst, ef ekki alþjóð — mætt talsverðri andstöðu, svo að ekki sé meira sagt, hér á þingi. Hér er, eins og áður sagði, verið að gera alveg ótrúlegar breytingar á málinu milli umræðna, á máli sem ekki fer aftur til nefndar og er því í lokaumræðu.

Margoft hefur verið bent á að þessi tillaga samræmist ekki því verkferli sem samþykkt var með lögum um rammaáætlun, enda hafi verkefnisstjórn rammaáætlunar ekki lokið skoðun á þeim virkjunarkostum sem bætt hefur verið við tillöguna. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í minnisblaði frá sjálfu umhverfis- og samgönguráðuneytinu. Þessu vinnulagi hefur minni hluti Alþingis mótmælt og mun halda því áfram, að því er ég tel, þar til málið verður tekið af dagskrá eða einhvers konar samkomulag gert um það hvernig megi ljúka því í sátt.

Eins og þetta væri ekki nóg þá gerðist það líka að hæstv. forsætisráðherra flækti málið enn frekar með því að kasta því fram í umræðunni að málið væri liður í kjaraviðræðum án þess þó að útskýra það nokkuð frekar hvernig. Ég veit ekki til þess að sú útskýring hafi nokkurn tímann komið fram þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir henni. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar sagt í fjölmiðlum að þessi tillaga sé ekki innlegg í kjaraviðræður. Ég spyr því: Hverju eigum við að trúa í þessu máli? Hvað eigum við að halda?

Þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar um að málið sé ekki hæft til umræðu — enda harla erfitt að átta sig á forsendum eða því hvert málið stefnir — hefur hæstv. forseti verið ófáanlegur til að taka það af dagskrá. Nú hefur í tvígang verið gengið til atkvæða um dagskrártillögu sem er tillaga minni hluta Alþingis um breytta dagskrá. Þar er lagt til að þetta mál, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, verði tekið af dagskrá en inn á dagskrá sett að hæstv. forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði. Áður en ég hóf ræðu mína hefur, líkt og hæstv. forseti kynnti, þriðja dagskrártillagan komið fram sem gengið verður til atkvæða um við upphaf þingfundar á morgun, um að þetta mál verði tekið af dagskrá og þau mál sem brýnast er að ræða hér og nú komi á dagskrá þingsins strax; það er þá sérstök umræða um fyrirkomulag náms til stúdentsprófs og stöðuna á vinnumarkaði, að það verði fyrstu málin sem tekin verða fyrir.

Ég tel mikilvægt að hafa rakið forsögu umræðunnar hér síðustu daga þó að í stuttu máli sé, eða á hálfgerðu hundavaði, til að setja það sem hér hefur verið að gerast í samhengi.

Hæstv. forseti. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, Hvammsvirkjun, og breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar sem, líkt og ég rakti í upphafi máls míns, gengur út á að fjórir aðrir virkjunarkostir, til viðbótar við Hvammsvirkjun, færist í nýtingarflokk, þ.e. Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Það hefur hins vegar gerst meðan á umræðunni hefur staðið að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar hefur dregið þann lið breytingartillögunnar sem snýr að Hagavatnsvirkjun til baka með þeirri greinargerð að önnur sjónarmið eigi við um hana en aðrar virkjanir í tillögunni. Gott og vel. Breytingartillagan er því, má kannski segja, minna vond sem munar um Hagavatnsvirkjun. Hinar tillögurnar, þar sem verið er að taka fram fyrir hendurnar á verkefnisstjórn um rammaáætlun sem ekki hefur lokið umfjöllun sinni um hina virkjunarkostina, standa hins vegar eftir.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem á undan mér hafa talað og bent á að svona tillöguflutningur gangi ekki og að Alþingi verði að leyfa verkefnisstjórn um rammaáætlun að ljúka störfum sínum. Eða er tilgangurinn með þessu öllu saman kannski sá að henda því ferli sem rammaáætlun er? Ég ætla rétt að vona að svo sé ekki. Verkefnisstjórnin hafði lokið umfjöllun sinni um Hvammsvirkjun og allir sammála um að hana væri hægt að taka hér til umræðu og það er ekki um hina upprunalegu tillögu sem ágreiningurinn stendur.

Hæstv. forseti. Staðan í virkjunarmálum á Íslandi í dag sú að nú þegar er búið að virkja um 50% af virkjanlegri orku á landinu. Þá er allt meðtalið og inni í því vatnsföll sem ég held að við værum flest sammála um að ekki beri að virkja; að verðmæti þeirra eins og þau eru frá náttúrunnar hendi sé einfaldlega miklu meira en nokkurn tíma gæti orðið ef þau væru virkjuð. Leiða má að því líkur að í raun sé þegar búið að virkja meira en helming þess sem virkjað verður í fyrirsjáanlegri framtíð og jafnvel lengur. Þetta finnst mér mikilvægt í þessari umræðu, því að á Íslandi dagsins í dag höfum við aðra og betri möguleika til verðmætasköpunar en að fara út í umdeildar virkjanir sem ekki hafa verið nógu vel rannsakaðar. Það er hins vegar ekkert víst að svo verði alltaf.

Mér finnst það þess vegna mikill ábyrgðarhluti að við sem erum fullorðin í dag og höfum ákvörðunarvaldið, hvort sem það er hér á Alþingi eða bara með kosningarrétti okkar, göngum ekki á náttúruauðlindir okkar með óafturkræfum hætti. Við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér nema þó kannski helst það að komandi kynslóðir, vegna hnattrænnar hlýnunar og loftslagsbreytinga, hafi færri valkosti, hafi úr færri möguleikum að moða, en við sem erum upp á okkar besta í dag. Mín skoðun er sú að sem ábyrgir einstaklingar verðum við að skilja við landið þannig að komandi kynslóðir hafi einhverja valmöguleika í framtíðinni.

Ferðamenn eru í dag okkar helsta gjaldeyrislind, en það er ekkert víst að svo verði alltaf. Þessir ferðamenn eru ekki hingað komnir til að skoða virkjanir. Þeir eru þvert á móti komnir hingað til að skoða ósnortna náttúru. Bæði hér á Alþingi sem og í almennri samfélagsumræðu hefur verið bent á það að vegna álags á tiltekna ferðamannastaði verði að beina hinum mikla ferðamannastraumi víðar um landið, að létta verði álaginu á þá staði sem eru vinsælastir í dag.

Ég vil spyrja þeirrar spurningar, velta því hér upp, hvort það sé ekki í hinu stóra samhengi þjóðhagslegra hagkvæmara — í stað þess að hugsa sífellt um það hvernig við getum virkjað náttúruauðlindir okkar með raforkuframleiðslu í huga — að leita leiða til að virkja náttúruauðlindir okkar á þann hátt að ferðamenn geti skoðað þær og notið þeirra og umgengist þær á þann hátt að náttúran beri ekki skaða af.

Bent hefur verið á það að með Skrokkölduvirkjun, sem er einn þeirra virkjunarkosta sem meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur til að verði settur í nýtingarflokk, sé verið að fara inn á ósnortin víðerni á miðhálendinu sem eru stærstu ósnortnu víðernin í Evrópu. Og þá erum við ekki einu sinni farin að tala um háspennulínur, vegi og aðra þá manngerðu hluti sem tengjast raforkuframleiðslu.

Á mjög áhugaverðu málþingi, sem Landvernd stóð fyrir um síðustu helgi, fjölluðu fræðimenn úr hinum fjölbreyttustu fræðigreinum um virði hálendisins. Þar ræddi Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, um náttúrufarslegt virði svæðisins og nefndi að þar væru vistkerfi sem væru fágæt á heimsvísu. Í máli sínu lagði hún áherslu á að ein mestu verðmæti hálendis Íslands lægju í einstöku upplifunargildi landslags og víðerna og að þau yrðu ekki varðveitt nema í stórum og víðáttumiklum heildum. Þetta er eitthvað sem mér finnst við verða að taka mark á, alla vega hlusta á.

Páll Jakob Líndal, aðjúnkt við sálfræðideild Háskóla Íslands, sagði frá því hvernig sálfræðilegar rannsóknir hafi ítrekað sýnt fram á jákvæð andleg, líkamleg og félagsleg áhrif náttúrunnar og að umrædd áhrif endurspeglist sterkt í jákvæðum viðhorfum til náttúrunnar, sem eru mun jákvæðari en viðhorf fólks til manngerðs umhverfis. Neikvæð viðhorf gagnvart umhverfinu aukist hins vegar með aukinni uppbyggingu á umhverfinu.

Hæstv. forseti. Ég fer ekki dult með þá skoðun mína að við eigum að fara okkur mjög hægt og ígrunda vandlega hvort og þá hvar ráðast eigi í frekari virkjanir. Líkt og ég lýsti hér áðan liggja svo gríðarlega margvíslegir hagsmunir undir þegar ákvörðun um virkjun er tekin. Það breytir því ekki að það faglega verkfæri sem rammaáætlun er er mjög dýrmætt og að með því að fylgja því ferli getum við verið nokkurn veginn viss um að þau umhverfislegu áhrif sem af virkjun mundu hljótast liggi eins vel fyrir og hafi verið eins vel rannsökuð og framast er unnt að gera. Í því tel ég talsvert mikið hald og huggun, því að ég treysti rammaáætlun ágætlega til þess að fara fram með faglegt mat á því hvað sé hagkvæmt að gera og hvað sé, með tilliti til náttúrunnar, hreinlega forsvaranlegt að gera.

Ég tek því undir það að nauðsynlegt sé að draga breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar til baka og við eigum að halda okkur í umræðu um upphaflega tillögu hæstv. umhverfisráðherra og láta verkefnisstjórn 3. áfanga um rammaáætlun ljúka því starfi sem henni var falið.

Ég tek því undir með 2. minni hluta hv. atvinnuveganefndar sem leggur til að málinu, með leyfi forseta:

„… verði vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra sem feli verkefnisstjórn skv. 8. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun að fjalla um þann kost sem tillagan felur í sér og flokki hann ásamt þeim virkjunarkostum sem Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar, sbr. tilkynningu þar að lútandi frá 20. janúar 2015.“

Með tilliti til umhverfisins — í stað þess að æða af stað með illa ígrundaðar og hreinlega ólöglegar tillögur um það hvernig flytja eigi virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingarflokk — get ég ekki annað en (Forseti hringir.) tekið undir það að við verðum að láta verkefnisstjórn um rammaáætlun klára sína vinnu.