144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Úr því að það liggur fyrir að hér eigi að halda þingstörfum áfram næsta klukkutímann þá vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta hvort hún geti ekki kallað út þá hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem greiddu um það atkvæði upp úr klukkan tíu í morgun að hér skyldi verða fundur til miðnættis. Mér finnst annað ekki ganga upp ef þetta mál er svo brýnt að við verðum að ræða það hér til miðnættis og þá verða hv. þingmenn líka að standa með gjörðum sínum og því hvernig þeir hafa greitt atkvæði og vera að minnsta kosti viðstaddir umræðuna. Ég fer ekki fram á meira.