144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að skýra hér með hvaða hætti þingstörf gangi áfram. Það er til fyrirmyndar af forseta að gefa slíkar yfirlýsingar af forsetastóli og gefur okkur færi á að skipuleggja verkin.

Vegna þess sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði hér áðan þá er það ekki hyskni um að kenna að menn vilji ræða málin hér. Á alvöruvinnustað þar sem menn legðu áherslu á afköst og árangur í starfi mundu þeir undirbyggja málin betur. Þá mundu menn nýta tímann sem nú er kominn til þess að setjast aftur yfir málið í atvinnuveganefnd, þaðan sem vandræðin eru uppsprottin, og fara í að vinna málið almennilega. Það sem er verið að gera hér er að það er verið að veiða aftur og aftur með götóttri nót og það vita allir að það gerir ekki neitt, jafnvel maður eins og ég sem aldrei hef verið til sjós veit að maður veiðir ekki neitt með þeim hætti.