144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Látum nú vera þó að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi tekið hv. þm. Pál J. Pálsson haustaki og skrúfað hann í þessu máli, en hvað finnst hv. þingmanni um að þannig sé farið með alla þingmenn Framsóknarflokksins? Þeir eru látnir taka þátt í því að auðmýkja ekki einn heldur tvo hæstv. ráðherra flokksins. Það liggur fyrir að tveir ráðherrar Framsóknarflokksins eru ósammála þessari breytingartillögu. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sagðist helst hafa viljað sjá hina upphaflegu tillögu forverans. Hvað finnst hv. þingmanni um geð hv. þingmanna Framsóknarflokksins að láta hv. þm. Jón Gunnarsson kúga sig með þessum hætti til þess að lítilsvirða sína eigin ráðherra og standa aldrei upp, ekki einn einasti, til þess að verja þá þegar þeir eru beygðir í svaðið? Er ekki hv. þingmaður dálítið hissa á þessum lurðuskap Framsóknarflokksins?