144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um geð framsóknarmanna, það stendur hver með sínu, eins og sagt er. Ég tel framsóknarmenn ekkert beygða undir Jón Gunnarsson. Þeir taka þá ákvörðun sjálfir, hv. þingmenn, að styðja þetta mál en ekki sinn ráðherra. Það liggur í þeirri ákvörðun sem hér er borin fram af meiri hluta atvinnuveganefndar, sem báðir ráðherrar hafa tjáð sig um, fyrst sá sem lagði fram upphaflegu tillöguna og svo hæstv. umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir sem kom og sagði hvað henni fyndist að ætti að gera, þ.e. að láta upphaflegu tillöguna standa, að það væri hennar ósk að verkefnisstjórn fengi að klára.

Framsóknarmenn verða auðvitað að gera það upp við sig að styðja ekki tvo af sínum ráðherrum, en við eigum líka eftir að sjá í atkvæðagreiðslunni hvort ráðherrarnir standi yfir höfuð með sjálfum sér.