144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem ég vil segja fyrst í annarri ræðu minni um það málefni sem rætt hefur verið hér að undanförnu varðar úrskurð forseta Alþingis um lögmæti umræðunnar nú í kvöld og síðustu daga. Ég hef legið yfir þessum úrskurði síðustu tvær vikurnar og alltaf verð ég vissari um að hafa ekki séð eins veikburða málflutning og í orðalagi hæstv. forseta þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að honum sýnist rök hníga frekar í þá átt að fram hafi farið fagleg úttekt á þeim virkjunarkostum sem lagðir eru til að færðir verði í nýtingarflokk af meiri hluta atvinnuveganefndar. Það sem veldur sérstökum vonbrigðum við lestur úrskurðarins og samanburðar við þá tvo úrskurði sem komið hafa frá hvoru ráðuneytinu um sig, sem hafa komist að þeirri niðurstöðu öfugt við forseta að lögmæti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til sé ekki fyrir hendi, er að hvergi í úrskurði hæstv. forseta er þessara tveggja mismunandi álita getið. Það hefur komið fram í máli hæstv. forseta að hann hafi lesið og kynnt sér þessi álit, en hann svarar hvergi röksemdinni og lætur frekar eins og þau séu ekki til.

Mig langar líka að tæpa aðeins á meðferð þingsins á tillögum þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra á síðasta kjörtímabili vegna þess að sú málsmeðferð er gjarnan borin saman við þá málsmeðferð sem virkjunarkostir fá núna. Um það vil ég segja að ágætislýsing er í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar á atburðarásinni. Hún er að flestu leyti alveg hárrétt. Það er að vísu meinleg staðreyndarvilla þegar því er haldið fram að verkefnisstjórnin hafi tilnefnt 16 kosti í nýtingarflokk. Það er ekki þannig, þeir voru 22. Það má draga þá ályktun að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi litið svo á að í nýtingarflokki rammaáætlunar væru núna eingöngu 10 kostir, en svo er ekki, þeir eru 16. Þeim niðurstöðum var ruglað saman í nefndarálitinu. En atburðarásinni er vel lýst. Meðal þess sem þar kemur fram er að hún hafi verið í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna, þ.e. hinn auglýsti umsagnarfrestur sem framkvæmdur er af ráðherra í því tilfelli var í samræmi við lögin. Það stendur skýrum stöfum í nefndarálitinu. Ef núverandi meiri hluti hefði viljað leggja upp í sams konar leiðangur og þá var gert hefði hann þurft að gera það með sams konar hætti þannig að byggt væri á lögunum, en það er ekki gert. Það er mjög vel rökstutt af þeim sem flutti þessa tillögu, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, sem telur sig bundinn af tillögum verkefnisstjórnar.

Ef maður skoðar lögin nákvæmlega sér maður í hendi sér að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lúslesið þau með það í huga hvort mögulegt væri af hálfu þingmanna að leggja fram viðbótarkosti. Þrátt fyrir þann augljósa ágalla sem er á slíkri málsmeðferð þá erum við með einn verkefnakost sem hefur farið í gegnum langt umsagnarferli verkefnisstjórnar þar sem var meðal annars haft samráð við stofnanir, sem um þessi mál véla og fjalla, og við sveitarfélög þar sem gert er ráð fyrir því að leitað sé álits og leitað eftir vinnu og úttekt sérfræðinga, að skipaðar séu sérstakar fagnefndir, að farið sé í 12 vikna umsagnarferli, að málið fari síðan til ráðuneytisins, fari svo í tillöguflutning ráðuneytisins til ríkisstjórnar, fari þaðan inn í stjórnarflokkana, fari úr stjórnarflokkunum inn í sal hér til fyrri umræðu og fari síðan til nefndar til vinnslu þar. Þetta er bara einn kostur. Ef það er lögmætt að bæta við þremur eða fjórum kostum þá er algerlega fráleitt og ótrúlega veikt, óvandað og ófaglegt að taka þrjá virkjunarkosti og sleppa allri þessari málsmeðferð. Það stenst engan veginn skoðun. Þessi megingalli á málsmeðferðinni gerir málstað þeirra sem flytja þessa breytingartillögu svo veikan sem raun ber vitni. Þess vegna eru efnisrök meiri hlutans í málinu ekki nógu haldbær til þess að málið sé þingtækt.

Í öllum þeim umræðum sem hafa farið fram í þessum sal hefur því miður komið í ljós að ákvörðunin var ekki byggð á nægilega haldgóðri þekkingu. Það hefur afhjúpast aftur og aftur að menn töldu ákveðna virkjunarkosti hafa verið í nýtingarflokki, að þeir hefðu verið fluttir þaðan út. Hér hafa þingmenn komið upp og litið svo á að þessar tillögur ættu eftir að fara aftur til nefndar. Þingmenn hafa jafnvel viðurkennt að þeir hafi ekki kynnt sér ákveðin gögn sem lágu þessari ákvörðun til grundvallar. Þetta eru mikil vonbrigði.

Við settum þessi lög til þess að tryggja að ákvarðanir um virkjanir væru teknar með eins vönduðum hætti og nokkur möguleiki væri á og að við mundum jafnframt leitast eftir því að taka ákvarðanaferlið út úr þessum sal, taka það út úr hefðbundnu þrasi stjórnmálaflokkanna um þessi mál, sem einkennt hefur umræðu okkar síðustu áratugi. Ég hef miklar áhyggjur af því að niðurstaðan í þessu máli geti leitt til þess að þetta ferli sé algerlega í rúst, að engin virðing verði borin fyrir því sem við blasir á næsta kjörtímabili, að sá meiri hluti sem verður þá — ég held að það verði ekki sami meiri hluti og nú er — muni telja sig óbundinn af því ferli sem lögin gera ráð fyrir eða geta að minnsta kosti beitt nokkuð frjórri sköpunargáfu til þess að útfæra óskir sínar og pólitísku vonir og þrár í þessum efnum. Það er að mínu mati ákaflega neikvætt.

Það er auðvitað til mikils batnaðar að menn hafi dregið til baka upprunalegu tillögurnar sem fólu meðal annars í sér að Búlandsvirkjun í Skaftá yrði sett í nýtingarflokk án þess að farið hefði fram fagleg úttekt á þeim virkjunarkosti, auk þess sem það væri í rauninni mikil náttúruníðsla að mínu mati að ráðast í að stífla Skaftá um það bil kílómetra fyrir ofan Lambaskarðshóla á mjög fjölförnu ferðamannasvæði. Þá er líka gert ráð fyrir því í upprunalegu tillögunum, sem fram komu í nóvember síðastliðnum frá formanni atvinnuveganefndar, að ráðist yrði í virkjun í Hólmsá við Atley sem er austan Mýrdalsjökuls á svokallaðri Öldufellsleið. Það var mjög misráðið líka að mínu mati því að faglegri úttekt á þeim virkjunarkosti er algerlega ólokið, auk þess sem sú virkjun hefði orðið það mannvirki á Íslandi sem næst stæði Kötlueldgosi. Það er mikið fagnaðarefni að menn hafi séð að sér í þeim efnum. Það er fagnaðarefni að menn hafi séð að sér þegar kemur að Hagavatnsvirkjun. Ég á von á því að menn sjái að sér þegar kemur að fleiri virkjunum. Það sýnir auðvitað að þetta ferli er ekki nægilega vel undirbyggt af vísindalegri og faglegri þekkingu. Það sýnir miklu frekar að menn eru í pólitískum leik hér að fálma eftir því sem þeir (Forseti hringir.) geta komist upp með í þessum efnum. Það er afar neikvætt.