144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála því. Það er það sem ég hef helst talað fyrir í þessari umræðu. Ég er bæði virkjunarsinni og verndunarsinni því ástríða mín liggur ekki á því sviði og ég hef þar af leiðandi ekki lagt mig mikið fram við að kynna mér kosti og galla á þessu, t.d. hvað við græðum efnahagslega á því að virkja og hvað við græðum efnahagslega varðandi túrismann, ferðamenn, við það að vernda og það sem varðar komandi kynslóðir o.s.frv. En það eru nokkrir þættir sem mér finnst vera grunngildi í þessu. Eitt er það að um leið og þú ferð af stað með að virkja er um að ræða óafturkræfar aðgerðir. Þar af leiðandi hlýtur vafinn að liggja í því að fara ekki af stað með eitthvað sem ekki er hægt að bakka með. Það finnst mér vera eitt grunngildið sem þarf að hafa að leiðarljósi. Hitt er náttúrlega að það sé rammi utan um ákvarðanir um langtímastefnumótun og menn haldi sig við hana og það er það sem ég hef kallað eftir í þessari umræðu.

Mig langar að spyrja þingmanninn um eitt að lokum. Ef minni hluti þingsins, einn þriðji eins og í Danmörku, gæti skotið málum til þjóðarinnar sem Alþingi væri að samþykkja og einhver tiltekinn minni hluti landsmanna, kannski 10%, gæti skotið (Forseti hringir.) málum sem þingið væri búið að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvaða áhrif mundi það hafa að mati hv. þingmanns (Forseti hringir.) á umræðuhefðina og tækifæri til langtímastefnumótunar á Alþingi?