144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að við skulum koma hér saman eftir þriggja daga helgi og það hafi ekkert gerst í því máli sem staðið hefur fast í þinginu í tvær vikur. Menn hafa lýst áhuga á því að setjast saman niður og freista þess að finna einhvern sameiginlegan flöt, en áhuginn á ófriðnum er öllu öðru yfirsterkara hjá stjórnarmeirihlutanum. Það er ekkert skrýtið, virðulegur forseti, að hér sé starfsáætlun þingsins sprungin í loft upp, að hér sé allt komið út úr dagatalinu þegar verkstjórnin er með þessum hætti. Ég verð að lýsa því að ég finn til með virðulegum forseta að vera kominn á þessa raunalegu leið með forustu ríkisstjórnarinnar, því að það er á þeirra ábyrgð að hér er ringulreið, bæði í samfélaginu og í þinginu.