144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í gær kíkti ég inn á Alþingisvefinn til að kanna dagskrá þingsins í dag og ég verð að viðurkenna að það kom svona ákveðin von í hjarta þegar ég sá að dagskráin hafði ekki verið tilkynnt, nú væri einhver vinna í gangi til að reyna að finna lausn á því hvernig við kæmumst út úr þeirri pattstöðu sem er í þinginu.

Sú von brást. Við sjáum sömu dagskrána, sömu málin í sömu röð frá hæstv. forseta og við fáum ekki að ræða verkföllin eða ástandið þar, við verðum bara að hlusta á misvísandi upplýsingar í fjölmiðlum. Forsætisráðherrann segir að til greina komi að hækka skatta og það verður til þess að Morgunblaðið tekur viðtal við hæstv. fjármálaráðherra sem segist alls ekki ætla að hækka skatta, frekar þurfi að lækka skatta, það sé hluti af aðgerðum. Hér situr Alþingi Íslendinga, 63 þingmenn, og það er eins og að horfa á borðtennisleik (Forseti hringir.) á meðan þingmenn hlusta á yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum um það hvað eigi að gera, en þeir halda þinginu algjörlega frá umræðu.