144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, málin fást ekki rædd. Hver er með dagskrárvaldið á þinginu? Það er hæstv. forseti. Hann setur þetta allt á dagskrá. Ég tek heils hugar undir með hv. formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins að við viljum gjarnan fá að ræða þessi mál, við viljum gjarnan fá þau til afgreiðslu, taka öll málin sem við erum sammála um, sem eru mjög mörg, og koma með þau inn. Út á það hefur dagskrártillaga okkar gengið. Við erum í vandræðum vegna þess að við sitjum hér og fjöllum um fund sem var í morgun sem hefur svo ekkert verið rætt sérstaklega um annars staðar. Það eru strax komnar misvísandi upplýsingar um hvað gerðist á þeim fundi. Er það ekki enn frekari rökstuðningur fyrir því að þetta fari í nefndina áfram og menn ræði þá það sem þar kom fram í staðinn fyrir að vera með getgátur sem varða einstaka þætti? Við erum að fá upplýsingar en þær stangast á við það sem meirihlutafulltrúarnir í atvinnuveganefnd segja, þær stangast á, (Forseti hringir.) þannig að það eru greinilega tvenns konar eða þrenns konar túlkanir á þessum fundi í morgun. Eigum við að halda áfram að ræða þetta í staðinn fyrir að gera það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir stingur upp á? Tölum um hin málin. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera hér og erum að biðja um úr þessum ræðustóli í (Forseti hringir.) dagskrárbeiðni.