144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Frá því í nóvember síðastliðnum hefur meiri hluti atvinnuveganefndar dregið til baka hugmyndir um að færa í nýtingarflokk Búlandsvirkjun í Skaftá, Hólmsárvirkjun við Atley og Hagavatnsvirkjun. Eftir standa fjórar virkjanir. Tveir hv. þingmenn úr meiri hluta atvinnuveganefndar, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Páll Jóhann Pálsson, komu upp áðan og sögðu að verkefnisstjórnin hefði gefið þeim þá einkunn á fundi í morgun að Skrokkalda væri á gráu svæði; alveg brimandi af stolti yfir því að það væru þá alltént þrjár virkjanir sem væri að mati verkefnisstjórnarinnar í lagi að flytja á milli flokka. Ég hefði þá búist við því að hv. þingmenn mundu tilkynna það hér að þeir ætluðu að draga Skrokköldu til baka. Eða er í lagi að flytja á milli flokka virkjanir sem eru á gráu svæði? Ég sé það og það sjá það allir að það sem meiri hluti atvinnuveganefndar er að reyna að gera hér er að kanna hversu langt hann kemst, hversu margar virkjanir hann getur farið með fram hjá verkefnisstjórninni. Nú verður meiri hluti atvinnuveganefndar að lesa af vörum mínum: Engar, engar.