144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það greiði fyrir fundarstjórn forseta ef misskilningur er leiðréttur. Mig langar að leiðrétta tvennt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Í fyrsta lagi þegar skrifað var undir Silicor uppi á Grundartanga þá var sagt algerlega skýrt að orkan fyrir fyrri helmingi þeirrar framkvæmdar væri fyrir hendi. Í öðru lagi kemur mér á óvart þegar hv. þingmenn tveir halda því fram að úr Búrfelli 2 komi einungis 35 megavött. Ég er hér að horfa á frétt sem var birt í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands 30. desember 2013. Þar er greint frá kynningarfundi sem Landsvirkjun var með í sveitinni um Búrfell 2 og sagt algerlega skýrt, og nefndir til menn eins og Helgi Bjarnason frá Landsvirkjun, að virkjunin geti að hámarki framleitt 140 megavött. Hér er eitthvað málum blandið. Ég hef alltaf litið svo á að þetta væri 130 megavatta virkjun og hef talað um (Forseti hringir.) það mjög lengi. Einu sinni var ég iðnaðarráðherra, þá lá þetta fyrir með þessum (Forseti hringir.) hætti.