144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er misjafnt hversu mikið er eftir hald í því ef ákveðnir virkjunarkostir verða færðir í nýtingarflokk í þeim tilvikum sem fyrir liggur gamalt, að vísu úrelt, umhverfismat og mikill undirbúningur þannig að tiltölulega skjótt gætu framkvæmdir farið af stað. Það er líka alveg eins hægt að segja að það sé að slá ryki í augu fólks að fara að færa neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk, það væri mikið hald eftir í hlutunum þar sem fyrir liggur umhverfismat o.s.frv. Ég kaupi það nú ekki hrátt.

Herra forseti. Það er alveg örugglega rétt að það eru til náttúruverndarsinnar í öllum flokkum á Íslandi, ekki efast ég um það. En þeir virðast hafa lítil áhrif í sumum flokkum. Hvar heyrist núna í náttúruverndarfólkinu í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum? Af hverju er engin uppreisn þar við þessa framgöngu? Auðvitað hefur maður velt fyrir sér með aumingja vesalings Framsóknarflokkinn, hvað er orðið um hann, flokkinn sem nafni minn Hermannsson heitinn, blessuð sé minning hans, var að reyna að gera að grænum flokki? Og flokkinn sem Eysteinn Jónsson bar fram og setti náttúruverndarlög og stofnaði náttúruverndarráð o.s.frv., orðinn að hverri annarri forneskju og taglhnýtingi aftan í ofbeldisfyllstu stóriðjuhaukunum í Sjálfstæðisflokknum. Það er aldeilis hlutskipti, eða hitt þó heldur. Ég held að það sem við þurfum að horfast í augu við varðandi rammaáætlun — það er alveg rétt að allir bundu vonir við að sú aðferðafræði mundi auðvelda okkur að glíma við þessi mál og ná utan um þau, ekki endilega þannig að út úr henni kæmu alltaf niðurstöður sem allir yrðu sáttir við. Að sjálfsögðu væri enginn svo bernskur, held ég, að gefa sér það. En það er allt annað að taka við og lifa með niðurstöðunni, hvort sem menn eru sáttir eða ósáttir, ef þeir vita að vandað var til verka og ekkert til sparað og hlutunum var gefinn tími til að leggjast í eins skynsamlegan farveg og mögulegt er.

Ég hef líka verið mjög hlynntur því vegna þess að tíminn vinnur með náttúrunni. (Forseti hringir.) Það er engin spurning. Það er kannski þess vegna sem offorsið og græðgin kemur stundum upp um menn, mönnum liggur á af því að þeir vita að þeir eru að reyna að knýja eitthvað í gegn sem sennilega væri ekki á dagskrá (Forseti hringir.)eftir 5–10 ár, ef þróunin verður með sama áframhaldi.