144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir við dagskrá fundarins í dag sem hefur verið sú sama á þriðju viku. Ef þetta er ekki að eyða dögunum í vitleysu þá veit ég ekki hvernig það lítur út. Það er greinilegt þrátefli í gangi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er í raun og veru þyngra en tárum taki. Ég hef af því reynslu að hafa verið í ríkisstjórn sjálf á sögulega erfiðum tímum og þá var það að minnsta kosti þannig að eitthvert talsamband var í gangi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu allan tímann, alltaf, líka þegar við vorum í okkar erfiðustu verkefnum. Staðan er þannig núna að það er ekkert samtal í gangi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er fullkomið sambandsleysi í gangi. Ef það endurspeglar ekki einhvers konar rof milli veruleika og skynjunar þá veit ég ekki hvernig það lítur út.

Verkfall hjúkrunarfræðinga hefst á (Forseti hringir.) miðnætti. Það eru að hefjast mótmæli hér fyrir utan og ástandið í samfélaginu er alvarlegra (Forseti hringir.) en um árabil. Á meðan gerist hvað? Það er engin ástæða til að tala við (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna þegar þessi staða er komin upp.