144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála henni um þessi mál í öllum meginatriðum og ég held einmitt að þróunin sé sú að það séu alltaf fleiri og fleiri að átta sig á því að virkjunarframkvæmdir eru óafturkræfar. Við erum komin á þann stað í virkjunarframkvæmdum að við þurfum að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að fara enn lengra inn á miðhálendi Íslands og þá er það ekki óspjallað víðerni lengur. Það eru spurningar sem hanga á spýtunni varðandi Skrokköldu, sem er að mörgu leyti fyrsta skrefið þangað.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann um ákveðin sjónarmið sem fram komu í máli formanns atvinnuveganefndar fyrr í dag þar sem hann sagði — ég man ekki hvað hann sagði orðrétt, en slíkrar orðræðu gætir oft í umræðunni. Sagt er: Við verðum að koma þessum virkjunarkostum í gegn. Þetta eru skynsamlegir virkjunarkostir og vinstri græn verða alltaf á móti þessu þannig að það verður aldrei nein sátt um það hvort sem er.

Mig langar að fá viðbrögð (Forseti hringir.) formanns þingflokks vinstri grænna við nákvæmlega þessum málflutningi.