144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrna góða ræðu. Það er ágætt þegar hlutirnir eru bornir fram skýrt og farið í meginatriði. Ég man þá tíð þegar núverandi hv. þingmaður var þáverandi hæstv. umhverfisráðherra og var af þeim sem nú tala hæst um pólitísk hrossakaup talin helsti efnahagsvandi Íslands. Hin fullkomna afneitun á hruninu birtist í þeim glórulausu hugmyndum. Nú erum við í hinni hliðinni á því.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það skjóti ekki skökku við að núna þegar við erum að rétta úr kútnum eftir hið mikla efnahagslega áfall sem bankahrunið olli og hrun íslensku krónunnar þá sé talið nauðsynlegt að eyðileggja drauminn um ósnortin víðerni og vernd miðhálendisins á Íslandi.