144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki til þess áðan að spyrja hv. 4. þm. Norðaust., Steingrím J. Sigfússon, út í það hvernig við getum breytt rammaáætlun eða hvaða hugmyndir við getum rætt í þeim efnum til að reyna að láta þetta ferli virka til framtíðar. Það er greinilegt að mikið ósætti er um hvernig rammaáætlun virkar, líkt og var á síðasta kjörtímabili og læt ég algjörlega í friði hvað af þeirri gagnrýni eða ósætti var byggt á málefnalegum grunni eða út frá hvaða forsendum menn dæmdu ferlið. Eftir stendur að það ríkir mikið ósætti um ferlið og að því er virðist af hálfu fyrri ríkisstjórnar, sem er núna í minni hluta, og fyrrverandi minni hluta, sem er núna í ríkisstjórn.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður sjái helst fyrir sér að sé hægt að gera til að laga ferlið þannig að við fáum hingað aftur rammaáætlun þar sem við getum sagt með sanni að allir þingmenn greiði atkvæði með einhvers konar tillögu í þessum málaflokki.