144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er djúpstæðari spurning á ferð en svo að hægt sé að svara henni á einni mínútu og jafnvel þótt þær væru tvær. Í stuttu máli er vandamálið sem við eigum við að etja, hvað varðar málsmeðferðina núna, þ.e. að við höfum talað um þetta á þriðju viku og ekkert bólar á neins konar sátt um hvernig við ætlum að halda áfram, máttleysi minni hlutans. Að mínu mati þarf minni hluti þingsins að geta skotið málum til þjóðarinnar þegar ágreiningur sem þessi kemur upp. Í fyrsta lagi ætti samtalið sér stað áður en hingað væri komið í umræðunni. Sömuleiðis held ég að það væri bara hollt fyrir þingmenn að horfast aðeins í augu við það hvernig umræða um málið yrði frammi fyrir almenningi. Hvað mundi fólk segja? Hvað mundi það ræða? Og síðast en ekki síst, hvernig mundi það greiða atkvæði? Ég held að þetta sé holl spurning þegar við förum með mál inn á þing. Ég held að við ættum að spyrja okkur þeirrar spurningar oftar. Það (Forseti hringir.) fyrirkomulag á heima í stjórnarskrá og lögum (Forseti hringir.) en á ekki að fara eftir því hvað okkur finnst hverju sinni.