144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fara lauslega yfir þetta mál sem ég styð. Ég skrifa undir nefndarálit hv. utanríkismálanefndar þar sem lagt er til að þessi tillaga verði samþykkt. Nafnið á tillögunni hefur vakið talsverða athygli, eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson hér áðan, þ.e. um hin munaðarlausu höfundaverk. Í nefndinni var meðal annars rætt hvort við gætum áttað okkur á því hvaða höfundaverk væri um að ræða og um væri að ræða verk sem ekki væri þekktur höfundur á eða höfundur fyndist ekki. Ég gæti nefnt sem dæmi að við eigum skáldsögur — það tíðkaðist talsvert hér um miðbik 20. aldar, fram undir 1980 — sem væntanlega væru enn í höfundarétti en voru skrifaðar undir dulnefni. Þar sem Ísland er alllítið samfélag þá er vitað um flesta þá sem leyndust á bak við þessi dulnefni, en það er þó ekki algilt. Við eigum því talsvert af höfundaverkum undir dulnefni sem enginn veit hver skrifaði og mætti því kannski skilgreina sem munaðarlaus höfundarverk, en ekki er hægt að leita til höfunda eða rétthafa þessara verka til að fá að gera stafræn afrit af þessum bókum, svo að dæmi sé tekið, á bókasöfnum eða á öðrum söfnum þar sem reynt er að tryggja aðgengi almennings að slíkum verkum.

Hugsunin með þessu er að skilgreina nákvæmlega hvaða höfundaverk eigi þá að teljast munaðarlaus og hvernig eigi að meðhöndla það ef höfundur er ekki þekktur eða finnst ekki og þar af leiðandi ekki hægt að afrita með þessum hætti þessi verk sem hægt er að gera með því að leita leyfis hjá þekktum höfundum þekktra verka.

Þegar við fórum yfir þetta í hv. utanríkismálanefnd voru kannski ekki gríðarlega mörg dæmi sem komu í hug. En eins og hér kemur fram er til að mynda átt við að nota þetta í almannaþágu, þ.e. að gera stafræn afrit í almannaþágu, svo sem not vegna aðgangs í menntunar- eða menningarskyni, og á að taka til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana, kvikmynda og hljóðrita ásamt útvarpsstöðvum sem veita opinbera þjónustu. Hér eru afnotin af þessum munaðarlausu höfundaverkum skilgreind sérstaklega í almannaþágu.

Ég get tekið undir það að mér finnst eðlilegt að þarna séu settar einhverjar reglur. Ég veit að það hefur valdið vanda að koma þessum hluta menningararfsins á stafrænt form, en hins vegar vöknuðu hjá mér spurningar, þar sem ég hlustaði á hv. formann utanríkismálanefndar, Birgi Ármannsson, og það eru frekar spurningar um þá höfunda sem kjósa að vera óþekktir, kjósa að koma ekki fram undir nafni. Það er vel þekkt fyrirbæri í menningarheimum og ekki síst nú. Þekktasta dæmið er kannski Banksy, sem komst í íslenska fjölmiðla ekkert fyrir mjög löngu, en er sem sagt graffitílistamaður sem hefur orðið mjög þekktur fyrir það en hefur líka skrifað bækur og líka gert (Gripið fram í.)kvikmyndir. Verk Banksys, svo að dæmi sé tekið, sem hefur skrifað bækur og gert kvikmyndir, gætu átt heima undir þessu. Þetta er merkileg klemma sem hefur verið. Uppboðshaldarar hafa jafnvel selt verk eftir Banksy — viðkomandi listamaður er svo sannarlega óþekktur og eru ýmsar kenningar uppi um hver hann er, en uppruni hans er rakinn til Bristol — en látið þá sem hafa keypt verkin um að flytja þau til, verkin eru oft gerð á veggi opinberra bygginga eða í almannarými. Ég velti því helst fyrir mér hvernig fer með slíka listamenn sem kjósa nafnleysið og ættu þar af leiðandi kannski að vera hlynntir því að verkin séu nýtt með þessum hætti í almannaþágu, því að það er það sem þetta snýst um.

Þetta hefur verið sérstök tilhneiging hjá listamönnum sem mér finnst að minnsta kosti áhugaverð; þetta er umhugsunarefni því að væntanlega á frumvarp, sem er inni, frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eftir að koma fram. Mér finnst kannski að helst þyrfti að spyrja þessarar spurningar, þ.e. ekki um þá höfunda sem eru horfnir okkur, óþekktir en enn í höfundarétti, heldur þá höfunda sem kjósa að vera óþekktir, hvernig þessi tilskipun samræmist því vali listamanna að vera óþekktir, hvort þar stangist eitthvað á.

Eins og ég segi hér úr ræðustól Alþingis, algjörlega án ígrundunar, þá ímynda ég mér að það að kjósa að vera óþekktur feli í sér að maður vilji að verk manns séu í almannaþágu og séu öllum aðgengileg án endurgjalds, ég sé ekki endilega árekstrana í því. Þetta segi ég að óígrunduðu máli en þetta er eitt af því sem þarf að skoða í sambandi við það frumvarp sem fyrir liggur frá hæstv. ráðherra. Allsherjar- og menntamálanefnd þarf að setja sig inn í þessi mál og þetta val, þetta eru oft alkunn og með áhugaverðustu verkum sem við sjáum. Ég nefndi Banksy, en ég get líka nefnt franskan graffitílistamann, Blek le Rat. Rottan varð einkennismerki í hans graffitíi sem hið frjálsasta dýr borgarinnar, kannski getum við kallað hana áhrifavald, en þetta eru allt listamenn sem velja nafnleysið. Mér finnst mikilvægt að þessar spurningar verði teknar til skoðunar af hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Fyrst og fremst lít ég svo á að þetta snúist um það hvernig við getum komið menningararfinum yfir á stafrænt form þar sem ekki er unnt að leita leyfis rétthafa í almannaþágu. Það finnst mér jákvætt skref því að það er nokkuð sem við þurfum að gera ákveðið átak í hér á landi, þ.e. að koma menningararfi okkar yfir á stafrænt form. Þar hefur talsvert verið unnið, svo að maður nefni dæmi, hvað varðar handritin, hvað varðar Sarpinn og ýmsa gagnabanka sem söfnin hafa verið að vinna að, bæði saman og hvert í sínu lagi. Það er algjört lykilatriði í menntun og menningarstarfi að koma þessum menningararfi í aðgengilegt form fyrir nútímann, að koma honum yfir á stafrænt form.

Ef ég man rétt höfum við samþykkt þingsályktunartillögu sem snerist um það að efla aðgengi almennings að menningararfinum á stafrænu formi. Ég held að við ættum líka að skoða það, þegar við ræðum þessi mál, að átak verði gert í þeim efnum. Það er stórmál og kostar heilmikla fjármuni þó að heilmikið hafi verið gert hjá einstökum söfnum og talsvert verið unnið í því. En það að skrifa undir nefndarálit á þessari tilskipun merkir fyrst og fremst það að ég er sammála þessari heildarhugsun, en ég tel bæði að það séu álitaefni sem þarf að skoða hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd og að ekki sé síður þörf á markvissum aðgerðum.

Ég get nefnt sem dæmi myndlistarheiminn þar sem strandað hefur á höfundaréttarmálum til að hægt hafi verið að koma myndverkum á stafrænt form þannig að nemendur um land allt geti haft aðgang að íslenskri myndlist á stafrænu formi. Þetta hefur lengi verið í vinnslu. Þarna þurfum við að gera átak til að tryggja aðgengi almennings í landinu, og auðvitað miklu víðtækar, ekki bara hér, enda eru engin landamæri í þessum heimi, að okkar menningararfi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mikið meira, herra forseti, en geri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef velt upp í kringum þetta mál.