144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé viljandi og sökum tímaskorts sem við förum ekki út í dreifingu í gróðaskyni. Við getum tekið það algjörlega út fyrir sviga í þessari umræðu í bili, vissulega í andsvörum. Það að hv. þingmaður nefni Mikka mús sem hluta af núverandi menningararfi undirstrikar annan áhugaverðan punkt sem varðar þetta mál. Það eru tveir punktar sem mig langar til þess að varpa ljósi á. Annars vegar er það spurningin hvers vegna ég mætti ekki sem einstaklingur eða áhugamannafélag dreifa munaðarlausum verkum á sama hátt og menntastofnanir, söfn, skjalasöfn og almenningsbókasöfn o.s.frv., sem tilgreind eru í þessu frumvarpi. Hvers vegna mega aðeins þær stofnanir gera það? Það er ein spurning.

Ég er ekki endilega að segja að svo eigi að vera, en mér finnst mikilvægt að við ræðum það og reynum að átta okkur á því hvort eðlilegt sé að við gefum okkur í hinu almenna samfélagi að verk sem eru munaðarlaus eða virðast munaðarlaus séu einhvern veginn sjálfkrafa óaðgengileg almenningi, nema í gegnum almenningsbókasafn, menntastofnun o.s.frv. Þetta er önnur spurning. Hvers vegna eru það aðeins þær stofnanir, en ekki almenningur og almennt, sem fá að garfa í gagnagrunninum, sem ég vænti að leitað sé í? Ég veit engin svör hér og nú, en ég hefði áhuga á að skilja betur viðhorf hv. þingmanns.

Hitt er síðan spurningin um menningararf sem þegar er undir höfundarétti, svo sem Mikki mús. Nú er Walt Disney löngu látinn maður og þeir sem fundu upp Mikka mús. Hins vegar er Mikki mús, og ýmislegt annað sem enn þá er höfundaréttarvarið, sannanlega hluti af menningararfinum. Þótt það sé undir einhverju kapítalísku kerfi breytir það því ekki að það er menningararfur. Þarna finnst mér svolítið skjóta skökku við. Við lítum alltaf á höfundarétt sem einkaeign einstaklings eða höfundar en hins vegar horfum við á þann ríka þátt sem verk hafa í hugarheimi okkar allra í formi menningararfs. (Forseti hringir.) Þarna sé ég ákveðna togstreitu sem mig langar að varpa betra ljósi á. Ég vona að hv. þingmaður geti frætt okkur aðeins meira um það hvernig hann sér þessi mál.