144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EFS-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta dæmi um Mikka mús er flókið að því leyti að væntanlega heyrir það undir bandarísk höfundaréttarlög en við erum að ræða evrópsk höfundaréttarlög. Ég er því ekki viss um að við getum endilega fundið mikla samsvörun þar á milli. Við skulum taka hann út fyrir sviga í þessari umræðu.

Stóra spurningin sem hv. þingmaður varpar fram er hvort eðlilegt sé að stofnanir sem starfa í almannaþágu njóti sérréttinda hvað varðar þessi verk umfram aðra, þ.e. almenning, fyrirtæki og annað slíkt. Ég tel alla vega að þetta sé mjög mikilvægt skref til að koma munaðarlausum verkum í aðgengi og almennt aðgengi hlýtur að fást með þessu. Vissulega geta aðrir aðilar áfram greitt fyrir afnot af verkunum, til að mynda er eðlilegt að enn þá sé hægt að kaupa þessar bækur, svo dæmi sé tekið sem ég nefndi í ræðu minni áðan, bækurnar sem voru skrifaðar undir dulnefnum og ég hef keypt mörg eintök af sem áhugakona um gamlar íslenskar glæpasögur. Þær hef ég keypt, svo það sé sagt, væntanlega án þess að þeir fjármunir renni nokkurn tímann til höfundarins, en þess vegna styð ég að þetta sé gert aðgengilegt á annan hátt, þ.e. á stafrænu formi, þannig að það nýtist öllum. Það finnst mér að minnst kosti mikilvæg spurning. Ég er hins vegar ekki reiðubúin að ganga alla leið, frekar en mér heyrðist á hv. þingmanni, að það eigi þá að opna algjörlega fyrir þetta aðgengi.

Varðandi munaðarlausu verkin. Eins og ég sagði áðan voru ekki endilega mörg verk sem komu upp, þau eru einungis angi af allri heildinni. Það sem unnið er að og er mjög áhugavert er að reyna að koma, og ég tek aðeins eitt dæmi, bókmenntaarfinum á stafrænt form. Þá þarf að leita leyfis rétthafa eða höfunda á því verki sem enn er í höfundarétti, en upp til hópa virðist það vera frekar létt verk á Íslandi að fá slík leyfi, á því eru þó undantekningar. Það sem er menningarsögulega áhugavert í þessu er að langstærstur hluti (Forseti hringir.) verkanna hreyfist ekki mikið, svo dæmi sé tekið á bókasöfnum landsins í sínu fýsíska formi. Líklega (Forseti hringir.) erum við að auka lestur á þessum verkum með því að setja þau í stafrænt aðgengi. Það ætti auðvitað að vera hagur alls almennings í landinu.