144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og var kannski á svipuðum slóðum og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem lýtur að takmörkuninni við þessa tilteknu aðila um afritun á stafrænt form, hvort hún sé yfir höfuð nauðsynleg ef það eru einfaldlega almenn skilyrði fyrir því að afrita megi. Jafnframt vil ég spyrja þingmanninn hvort þetta eigi við í tilfellum þar sem hluti höfunda eða rétthafa hugverka er þekktur og hluti óþekktur eða óstaðsettur í hús, eða eftir atvikum með einhverjum hætti þannig ástatt um að ekki er hægt að nálgast það, gæti þetta greitt fyrir því að leysa úr málum þar sem margir rétthafar eru um eitt verk og vilji flestra eða allra stendur til þess nema eins að nýta verkið á einhvern hátt en ekki er unnt að hafa upp á þeim eina.