144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þegar listamaður er látinn, eða sá sem semur hugverkið, eru tímamörk á eigarréttinum, á því hvað hann er virkur lengi. En hv. þm. Helgi Hrafn var að tala um menn í lifanda lífi, til að mynda George Lucas, að hann gæti núna hætt að framleiða, að við fáum ekki að sjá Star Wars-myndir, sem ég hef að vísu aldrei náð að sjá, það er alveg hárrétt. Það er sá eignarréttur sem ég er að tala um, þegar höfundurinn er lifandi, af því að rætt var um að hér væri menningararfur og þá ætti höfundarréttur Georges Lucas allt í einu ekki að virka lengur.

Ég held að við verðum í prinsippinu, a.m.k. þegar höfundarnir eru á lífi, að segja að einkaeignarrétturinn sé klárlega virkur, hvort sem um er að ræða hugverk eða eitthvað annað. Það er mjög mikilvægt, og það er það sem ég er að reyna að fjalla um. Mér fannst ég heyra hjá hv. þingmanni að það væri hvort sem er ómögulegt að fylgja þessu eftir í tækninni núna, ómögulegt að hafa einhverja löggæslu til þess að verja höfundarrétt, en allt í lagi var að hafa mikla löggæslu til að koma í veg fyrir klámefni o.s.frv. Hvort tveggja er brot, hvort tveggja er refsivert brot. Við getum ekki gert neinn greinarmun á því hvers efnis brotið er. Ef það er brot eiga löggæsluyfirvöld að sinna því, eins og öllum öðrum brotum.