144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski var ég ekki alveg nógu skýr hvað varðar Star Wars áðan, ég get alveg tekið það á mig. En höfundaréttur virkar ekki aðeins þannig að hann til dæmis meini mönnum að dreifa fyrstu Star Wars-myndinni, enda var ég ekki að tala um það, heldur Star Wars-heiminum í sjálfu sér. Það mætti ekki búa til fleiri sögur um Loga geimgengil, ég mætti ekki búa til fleiri sögur. Ég mætti ekki eyða mínum tíma í það. Það er þannig. Það má ekki. Ef hv. þingmaður gerir það eða (Gripið fram í.)ég verðum við kærðir af George Lucas, vegna eignarréttar. Það er svo sem eitthvað sem væri alveg þess virði að ræða aðeins meira en það er ekki þungamiðjan í því sem ég er að segja.

Hvað varðar það að eignarréttur á hugverkum sé mjög mikilvægur er ég í grunninn sammála því. Sem dæmi má nefna að þegar kemur að opnum hugbúnaði er höfundarréttur nauðsynlegur til þess að það þýði eitthvað að segja opinn hugbúnaður. Ef ég til dæmis læt menn hafa hugbúnað með því skilyrði að ef þeir breyti honum þurfi þeir að dreifa honum aftur byggir það á því að ég hafi hugverkarétt til að geta gefið út þá tilskipun. Eins og ég segi enn og aftur og hef sagt frá upphafi þá eru píratar ekki á móti höfundarétti, við viljum einungis að hann sé í takt við tæknina eins og hún er í raunveruleikanum, ekki eins og hún er í ídealískum prinsippheimi þar sem er nægt fjármagn og réttargæsla er nógu örugg og ódýr, vegna þess að hún er það ekki.

Þegar kemur að klámmyndum var ég sérstaklega að tala um barnaklám eða ofbeldisklám þar sem fórnarlömb ofbeldis eru til staðar, sem er annað en klám sem menn eiga við í daglegu lífi. Ég nenni reyndar ekki út í umræðu hér um skilgreininguna á því. Það er sama sagan þegar kemur að klámi þar sem er sjálfviljugt fullorðið fólk, það er ekki hægt að stoppa það á netinu heldur, nema með tveimur leiðum, það eru tvær leiðir til þess að gera það. Önnur hefur í för með sér óheyrilegan kostnað við löggæslu og réttargæslu og hin er fólgin í því að stytta leiðir og gera minni kröfur til þeirrar löggæslu og réttarfars sem við tökum sem sjálfsögðum hlut, þ.e. með því að ganga á borgararéttindi.

Ég legg til að hvorugt sé í boði. Þá er ekkert annað eftir en að endurskoða höfundaréttar … (Forseti hringir.) sjálf.