144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Bara til að byrja á því að svara því sem hér var spurt um þá eru þrjú mál, mál nr. 700, 701 og 702, í allsherjar- og menntamálanefnd, sem eru höfundarlögin, þ.e. munaðarlausu verkin um lengri verndunartíma hljóðrita, einkaréttindi höfunda, samningskvaðir o.fl. Ég tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að það er kannski einmitt ástæða til þess að endurskoða verklagið og hvort þessar EES-reglugerðir, sem við innleiðum hér og erum gjarnan að gera, fari samhliða í faglega umræðu í nefndunum. Það er meira að segja vitnað í það hér í nefndaráliti í restina að þessi innleiðing kalli á breytingu á höfundalögum. Í sjálfu sér held ég að það sé skynsamlegra verkferli.

Eins og kom fram hjá hv. formanni utanríkismálanefndar þá kom málið fram hér áður og var fengin umsögn hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Það var ekki gert núna. Við getum gefið okkur að það geti verið nýtt fólk í nefndinni, að þar sé ekki alltaf sama fólkið. Mér þykir til dæmis hafa verið upplýsandi að fara aðeins í gegnum þessa reglugerð. Nú erum við að fjalla um þessi þrjú mál í allsherjar- og menntamálanefnd, eins og ég sagði, og ég var ekki búin að lesa þessa tilskipun. Mér þykir það skýra heilmargt fyrir mér þannig að ég tel að það hefði verið mjög gott að lesa þetta saman.

Ég ætla svo sem ekki að hafa mjög langt mál um þetta en mig langar aðeins að hugsa hér upphátt um þetta mál og velta fyrir mér nokkrum þáttum. Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess beinlínis að fresta þessu en það er mjög mikilvægt að við sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd höfum það sem hér hefur komið fram í huga og reynum þá að gera þær breytingar sem við teljum að séu réttar til að lagfæra lögin á bak við þetta.

Mér finnst þetta mál vera mjög gott í grunninn. Í 3. gr. er byrjað að tala um stafræna áætlun. Þá hvarflar að manni að við séum ekki sérstaklega vel stödd á Íslandi með okkar stafræna menningararf. Við vinstri græn höfum ítrekað bent á að það þurfi að auka fjármagn. Við lögðum fram mál, m.a. um stafræna íslensku, á haustþingi sem var samþykkt. Svo er að sjá hvort það fæst fjármagn í það. Það er ekki í hendi þrátt fyrir að eitthvað sé samþykkt.

Þetta snýr sérstaklega að munaðarlausum verkum. Eins og rifjað var upp í byrjun þessa máls þá hafa konur skrifað í gegnum tíðina undir dulnefni. Mér datt í hug, af því að hér var talað um ljóð, að konur gáfu gjarnan út ljóð margt fyrir löngu, sem var ekki mikið um, og gerðu það gjarnan undir dulnefni og jafnvel karlmannsnöfnum. Auðvitað er landið lítið og fólk gat áttað sig á því um hverja var að ræða en það verður ekki alltaf svo. Því finnst mér mikilvægt að þetta nái fram að ganga.

Það var talað um myndlist, ljósmyndir o.fl., að gera það aðgengilegt fyrir nemendur á stafrænu formi. Það finnst mér líka mikilvægt því að þetta er, eins og hér stendur, kvikmyndaverk, hljóð- og myndmiðlaverk og hljóðrit. Það er mikilvægt að hafa það aðgengilegt, t.d. í kennslu ef við viljum hafa nútímakennsluhætti þar sem við vinnum meira og minna í gegnum netið. Ég held að það sé af hinu góða.

Ég tek undir það sem kemur fram í 16. lið í þessari tilskipun þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að hlutaðeigandi stofnanir haldi skrár um ítarlegar leitir þeirra og að niðurstöðum slíkra leita, sem samanstanda einkum af niðurstöðum um að verk eða hljóðrit skuli vera álitin munaðarlaus verk í skilningi þessarar tilskipunar, ásamt upplýsingum um breytingu á stöðu og notkun þessara stofnana á munaðarlausum verkum, verði safnað saman og þær gerðar aðgengilegar öllum almenningi, einkum með því að skrá viðkomandi upplýsingar í gagnagrunn á netinu.“

Síðar segir:

„… kveða á um stofnun sérstaks gagnagrunns á netinu fyrir Sambandið til að geyma þessar upplýsingar og gera þær aðgengilegar öllum almenningi á gagnsæjan hátt. “

Sambandið, ég veit ekki hvort það er þá ESB sem hér um ræðir eða hvað það er, en ég tek undir það að vafi leikur á því hvort þetta gæti kostað eitthvað, hvort sem það er fyrir skóla, ríkið eða hvern sem er. Mér finnst það ekki vera mjög skýrt í þeim greinum sem ég hef lesið um þetta mál og hefði viljað sjá það talsvert skýrara vegna þess að það segir meðal annars í umsögn frá formanni höfundaréttarnefndar, með leyfi forseta:

„… er vert að minnast á að tilskipunin hefur verið gagnrýnd fyrir að nýtast ekki nægilega vel fyrir menningarstofnanir. Sérstaklega hefur skilyrðið um að leit skuli vera ítarleg verið þyrnir í augum margra því slík ítarleg leit er kostnaðarsöm og tímafrek og leiði því til þess að fyrirkomulagið komi ekki að tilætluðum notum fyrir menningarstofnanir þegar um er að ræða not mikils fjölda verka.“

Þeir sem með málið fara virðast telja að það hljótist af þessu kostnaður sem er ekki skilgreindur í þingsályktunartillögunni, a.m.k. ekki það sem ég hef lesið mér til skilnings um.

Síðan er bent á það að í norrænum höfundarétti sé að finna ákvæði sem gerir einfaldara að framkvæma þetta fyrir menningarstofnanir sem vilja nota slík söfn í sínum safnkosti. Það snýr að tilteknu samningsákvæði um fjöldanot verka í söfnum. Á það er einmitt bent, af því að við vorum að tala um að ræða þessi mál saman, að taka beri upp slíkt samningaákvæði í fyrirsögn eins og kemur fram í 5. gr. frumvarps um breytingu á höfundalögum. Ég held að við þurfum að hafa það í huga og horfa til þessa.

Ég held að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að tryggja að innleiðingin hafi ekki í för með sér að viðbótarkostnað fyrir þessar stofnanir.

Það er talað um, þó að það sé eitthvað á reiki um það, hversu mörg verk sé um að ræða. Í umsögn frá formanni höfundaréttarnefndar er talað um að í kringum 12% kvikmynda falli í hóp munaðarlausra verka og í riti um málið er talað um allt frá 5–50% þannig að það liggur mjög á reiki hversu mikið þetta er. Svo er talað um að það sé allt að 90% ljósmynda. Í ljósi aukinnar notkunar á netinu og myndum sem þar er dreift af alls konar tilefnum af hinum ýmsu aðilum er mjög mikilvægt að ná utan um þetta.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta lengra. Ég ætlaði rétt aðeins að koma inn á þetta. Ég held að þessi mál þurfi að ræða saman. Það sem mér datt helst í hug var að við þyrftum að skoða frekar hvort það fylgdi þessu einhver kostnaður þannig að menntastofnanir yrðu ekki fyrir slíku. Ég tek undir það sem kemur fram að ekki sé hægt að hafa ólíka nálgun á þessum verkum þegar kemur að því sem kallað er innri markaður og að betra sé að hafa sameiginlega nálgun þar sem við í Evrópu göngum út frá tilteknum reglum um það hvernig við megum nálgast og vinna með þessi munaðarlausu verk.

Ég hef úr töluverðu að moða eftir þessa umræðu hér í dag.