144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að mér tókst að svara því sem til mín var beint. Ég vil segja um síðari spurningarnar að ég held að við kunnum vel að vera komin á þann stað að einhver þróun í átt að því sem nefnt hefur verið borgaralaun eða einhverjir áfangar í slíku kunni að vera raunsæir eða að minnsta kosti umræðunnar virði.

Ég held að megináskorunin á næstu áratugum verði um afraksturinn af hagvextinum, af framleiðniaukningunni, af sjálfvirkninni. Hvert renna öll þau verðmæti sem skapast án þess að vinnandi hönd þurfi að koma þar að? Ef þau renna til samfélagsins býr samfélagið að miklu meiri verðmætum eftir 10 ár og enn meiri verðmætum eftir 20 ár en það býr að í dag og skiptir þeim verðmætum og reynir síðan að deila líka með sér vinnunni sem fyrir hendi er. En ef einhver alþjóðleg stórfyrirtæki eða 1% mannkyns, þeir efnuðustu í veröldinni, ná að kraka til sín afraksturinn af sjálfvirkninni, verðmætin sem þar skapast, hagvöxtinn sem verður án atvinnusköpunar, þá munum við standa frammi fyrir gríðarlegum samfélagsvandamálum að fáum áratugum liðnum.