144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að ekki verði gerðar breytingar á frumvarpinu varðandi skilgreiningu slysa, þetta með skyndilegan atburð sem takmarkar bætur, eins og dæmið þegar maður vill bjarga vini sínum þá á hann ekki rétt á bótum undir þessum lögum eins og hv. þingmaður nefndi og svo hin breytingin varðandi námið. Þá kemur maður einmitt að seinni punktinum að það eru allar þessar holur í kerfinu og menn eru með bútasaum og reyna að laga þetta en peningarnir eru naumir og menn eru að reyna að skammta þá á rétta staði, en það eru allar þessar holur sem þarf að fylla. Eins og hefur komið fram í umræðunni þá er þetta svolítill bútasaumur og enginn veit í rauninni hvernig þetta lítur allt saman út.

Í framhaldi af því langar mig að spyrja þingmanninn hvað honum finnist um það sem Péturs Blöndals-nefndin er að gera, hún er að taka hlutina á svolítið heildstæðari hátt, hvort hann þekki það mál og ef hann gerir það, hversu vel honum sýnist að nefndinni sé að takast til með að færa þetta úr þessum bútasaumi yfir í heildstæðara kerfi sem grípur fólk betur og er ekki með þessar endalausu sprungur sem fólk dettur ofan í.