144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er jákvætt og fagnaðarefni ef verkalýðshreyfingunni er að takast að knýja fram skattalækkanir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þær skattalækkanir ná til fólks sem er með yfir 309 þús. kr. á mánuði og upp úr tekjuskalanum, mest auðvitað fyrir þá sem eru með 700 þús. kr. og meira. Það undirstrikar enn frekar það sem ég lagði áherslu á í gær, sem er mikilvægi þess að tekið verði á kjörum örorku- og ellilífeyrisþega í framhaldi af þessum aðgerðum vegna þess að röksemdir eru fyrir því að nota skattbreytingar fyrst og fremst til að bæta kjör millitekjuhópanna vegna þess að lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum er að fá mestu hækkanirnar út úr samningunum. En það þýðir að tugir þúsunda Íslendinga fá hvorki kjarabætur út úr skattbreytingunum né út úr kjarasamningunum. Það er það fólk sem fyrst og fremst þarf að treysta á Tryggingastofnun ríkisins og kannski óverulegar fjárhæðir úr lífeyrissjóðum, þ.e. öryrkjar og ellilífeyrisþegar sem hvorki fá þær hækkanir sem lægst launaða fólkið er að fá né njóta nokkurra skattalækkana því að þeir eru undir 309 þús. kr. Ég brýni þingheim þess vegna enn til þess að sá hópur, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, með 300 þús. kr. og minna í tekjur á mánuði verði ekki skilinn eftir þegar búið er að taka á þeim málum sem snúa að millitekjuhópnum í skattamálum og því að mjaka lægstu laununum á lengri tíma upp í 300 þús. kr. sem allir eru sammála um að sé nauðsynlegt.