144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggjum við vinstri græn til að við bætist nýr kafli, endurskoðun stefnunnar, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að horft verði til endurskoðunar á náttúruverndarlögum og stefna þessi yfirfarin þegar henni verður lokið. Þannig muni skilgreiningar nýrra laga hafa áhrif á stefnuna, svo sem hvað varðar náttúruverndarsvæði og óbyggð víðerni.“

Við horfum til miðhálendisins og þeirra hugmynda sem því miður eru uppi um að leggja línu yfir Sprengisand. Við teljum mjög mikilvægt að þetta ósnortna víðerni okkar, sem er gimsteinn í íslenskri náttúru, sé friðað fyrir öllum línulögnum.