144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu og er einungis tvær greinar má segja að fjalli um tvo mjög afmarkaða þætti lyfjalaganna. Það er eiginlega vegna þess hversu afmarkaðir þessir þætti eru sem ég er með á nefndarálitinu, en þó með þeim fyrirvara sem ég gerði grein fyrir. Ég tek undir og styð heils hugar það sem fram hefur komið, t.d. í umræðunni hér í dag, að það þurfi og sé æskilegt að fara í heildarendurskoðun á lyfjalögum.

Ég tel að því sem fram kemur í athugasemdum embættis landlæknis eigi alls ekki að taka af einhverri léttúð því að ég held að það sé alveg hárrétt sem kemur þar fram um að lausasölulyf geti haft bæði óþægilegar og hættulegar aukaverkanir og þess vegna eigi ekki að auglýsa lyf eða að minnsta kosti ekki að umgangast lyf sem hverja aðra söluvöru. Að því sögðu finnst mér að við þurfum að hafa einhvers konar heildstætt kerfi um þetta því að ég held að annars geti það valdið enn meiri ruglingi.

Ég veit ekki hvort þetta svarar alveg spurningu þingmannsins en ég bið hann þá að endurtaka hana aftur fyrir mig.