144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:55]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún líkti saman pakkningum lyfja og tóbaks. Mér þykir ótrúlegt að allar mögulegar aukaverkanir sem lyfið getur valdið séu ekki nú þegar á pakkningunni. Ef svo er ekki held ég að það ætti umsvifalaust að merkja þær þannig.

Ég held að merkingarnar eins og þær eru á tóbaki séu vissulega fráhrindandi. Ég hef reyndar ekki séð tóbak auglýst af neinu viti í miðlum, ég held að það sé bannað, þannig að ég veit ekki hvort það er hægt að líkja þessu tvennu mikið saman. Hv. þingmaður talaði um það þegar fólk er með höfuðverk, og margir fá höfuðverk eða mígreni eða hvað sem er. Við sjáum höfuðverkjaeyði í sjónvarpinu, einhverja mynd þar sem verkurinn hverfur á núll einni og það er lítið talað um aukaverkanirnar, af því að þær standa á pakkningunni. Menn vaða út og kaupa lyfið og höfuðverkurinn á að fara. Af því að fólki líður illa er það ekki endilega að pæla í því hverjar aukaverkanirnar eru, af því að sársaukinn er mikill núna og það tekst á við afleiðingarnar af því seinna.