144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er með hálfum huga að ég blanda mér í deilur þeirra flokkssystkina um íbúfen en hins vegar vil ég óska hv. þingmanni til hamingju, bæði með góða ræðu og það hugrekki sem hann sýnir með því að gera uppreisn gegn hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hallast heldur á sveifina með hv. þingmanni. Mér fannst ræða hans mjög góð og sannfærandi. Varðandi þá hugmynd sem kom fram um sérstakar merkingar þá hugsa ég að væru settar á íbúfenpakkann fjórar svartar hauskúpur mundi maður kannski ekki njóta stundarinnar mjög, svo ég vísi í hið ágæta slagorð sem hv. þingmaður nefndi áðan.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er eftirfarandi. Hann sagði að ef menn tækju þá krókaleið sem verið er að fara með frumvarpinu mundi það hugsanlega koma í veg fyrir að ráðist yrði í heildarúttekt á auglýsingamálum og lyfjamálum almennt. Spurning mín er þessi: Telur hv. þingmaður að kannski sé ráðlegt að parkera þessu máli og beina því í staðinn til ráðuneytis, Lyfjastofnunar, eða hver sem það er sem fer með þau mál, að fara í heildarúttekt á málinu? Menn hafa verið að væflast með þetta hér áratugum saman. Árið 1993 eða 1994 minnist ég þess að menn frestuðu gildistöku tveggja kafla lyfjalaga vegna þess að þeir vildu verða sér úti um niðurstöðu rannsókna á áhrifum lyfjaauglýsinga. Ég held að þær niðurstöður hafi aldrei komið. Hins vegar liggja þær fyrir núna. Þær liggja alveg skýrt fyrir miðað við bréf og erindi landlæknis. Hann segir að það ýti undir of mikla neyslu lyfja og lyf eru ekki venjuleg vara, ég er sammála hv. þingmanni um það. En hvað segir hann um það sem ég spurði hann um?