144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni, eða hæstv. ráðherra hefur ekki verið nægilega skýr í máli, að sá hluti sem lækkar skel- og rækjubætur fari inn í hefðbundna byggðakvótann, hann fer til byggðakvóta Byggðastofnunar. Þetta kerfi hefur reyndar ekki varað lengi en það eru vísbendingar um að það sé okkar besta aðferð til þess að auka byggðafestu, auka atvinnu og koma til móts við félagsleg réttindi ýmissa byggða að fara þann veg og þess vegna er hinn almenni byggðakvóti líka lækkaður til að færa auknar heimildir til Byggðastofnunar, byggðakvótans getum við kallað. Við þurfum hins vegar að fá skýrari niðurstöður í skýrslu sem Háskólinn á Akureyri er að vinna um það áður en við göngum lengra til verks. Það var almennt rætt í þessum hópi að byggðakvótinn sem slíkur sé ekki að virka sem skyldi og þess vegna þurfi það að virka.

Varðandi strandveiðarnar er ég sammála hv. þingmanni um að þær hafa fært líf í hafnirnar. Hins vegar eru líka allir sammála um að þær eru ekki mjög arðsamar í samanburði við aðrar veiðar og þegar menn kalla stundum hárri röddu eftir því að hér eigi að bjóða upp heimildir þar sem öllum sé frjálst að veiða, strandveiðarnar, er ég ekki viss um að menn væru tilbúnir að borga til dæmis mikið fyrir þær heimildir. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að þær hafa skipt máli í að halda lífi yfir sumartímann og reyndar að tryggja ákveðinn afla að landi fyrir sumar vinnslur. Þetta er það helsta sem ég held að ég geti svarað hv. þingmanni.