144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er gott að þessi tillaga er komin fram. Hún hefði auðvitað mátt koma fram miklu fyrr. Nú þegar stuttur tími er eftir af þessu þingi er knappur tími til að ræða þetta mikilvæga mál um ráðstöfun þess afla sem fer til félagslegra og byggðalegra aðgerða.

Ég hef talað fyrir því frá því að ég settist á þing að mikilvægt sé að hækka hlutfallið af úthlutuðum aflaheimildum. Hlutfallið er 5,3% í dag en ég tel að það þyrfti að vera miklu hærra og ráðstafað með öðrum hætti. Í því frumvarpi sem var hér til umfjöllunar í lok síðasta kjörtímabils var settur á leigupottur af hálfu ríkisins og átti hann að stækka og auka möguleika manna á að komast inn í greinina og auka þannig nýliðun í greininni, sem ég tel vera mjög brýnt. Það er ómögulegt að komast sem nýliði inn í sjávarútveg í dag nema vera með fullar hendur fjár og gott aðgengi að fjármagni hjá fjármálastofnunum sem venjulegt fólk hefur ekki. Í upphafi síðasta kjörtímabils var strandveiðum hleypt af stað með opnun sem skilaði góðum árangri að ég tel. Ég er alltaf að fá meiri og meiri vissu fyrir því að það var hárrétt ákvörðun. Menn urðu sáttari við það kerfi þó að sú sátt væri langt í frá til staðar að fullu, þá var þó einhver sátt í kjölfar þess að strandveiðar fóru í gang.

Ég var að ræða við einn trillukarl, eins og maður kallar oft sjómenn sem stunda veiðar á minni bátum, um helgina. Hann rökstuddi hve brýnt það væri að auka við í strandveiðum og nefndi sem dæmi að við hvert starf á strandveiðum dygðu 15 tonn til að skapa þokkalegar tekjur þann tíma sem strandveiðar eru leyfðar, þ.e. fjóra mánuði, en það þyrfti um 200 tonn til að skapa sambærilegar tekjur fyrir háseta um borð í skuttogara. Mér finnst þetta vera umhugsunarvert í því samhengi að oft og tíðum er verið að tala niður strandveiðar, að þær séu ekki hagkvæmar. Vissulega eru þær öðruvísi. Menn skapa sér vinnu sem einstaklingar en auðvitað eru einhver margfeldisáhrif í þjónustu í landi. Strandveiðum fylgir sáralítill útgerðarkostnaður. Þetta eru umhverfisvænar veiðar og auka möguleika í veikari byggðum til að skapa betri byggðafestu og möguleika á að menn geti búið á þessum stöðum áfram. Ég er ósátt við að það sé ekki aukið neitt við strandveiðar og það sé bara látið standa eins og verið hefur og ekki tekið tillit til umsagna sem hafa komið frá bæjarfélögum eins og Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ um hve mikilvægt sé að auka strandveiðar. Landssamband smábátaeigenda hefur einnig bent á það.

Eins og komið hefur fram er þessi þingsályktunartillaga eingöngu til eins árs. Það á að fara fram miklu betri greining á hvernig skiptingin á því magni sem þarna er til ráðstöfunar hefur nýst. Ráðherra kom inn á að skel- og rækjubætur ættu að fjara út á þrem árum og það ætti að taka úr hefðbundnum byggðakvóta og færa yfir í aflamark Byggðastofnunar. Ég tel að það sé rétt ákvörðun. Sú greining sem hefur verið gerð á aflamarki Byggðastofnunar hefur leitt í ljós að það er góð ráðstöfun og hefur gagnast vel í byggðarlögum sem ég þekki ágætlega til eins og á Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og í fleiri byggðarlögum, Tálknafirði. Þar hefur aflamark Byggðastofnunar nýst vel og líka á öðrum stöðum eins og nefnt hefur verið, á Raufarhöfn og fleiri stöðum.

Ég held að það þurfi að fara þá leið í þessari skoðun að stokka upp hinn hefðbundna byggðakvóta. Ég held að hann sé orðinn barn síns tíma sem þurfi að endurskoða og leita annarra leiða, bæði til að styrkja strandveiðar og hafa möguleika á aðgengi að aflamarki Byggðastofnunar. Nú þegar miklir erfiðleikar eru í minni sjávarbyggðum þá þarf það að vera til staðar svo að hægt sé að grípa strax inn í aðstæður með forvörnum. Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að skoðaðir yrðu í þessu samhengi möguleikar á að byggðafesta aflaheimildir. Ég mun halda áfram að tala fyrir því.

Hér er talað um að línuívilnun verði óbreytt. Ég veit að línuívilnun skiptir mörg byggðarlög miklu máli, en ég tel samt að við þurfum að horfa á þetta allt í heildarsamhengi þegar við tökum stærri ákvarðanir um að stokka þessa hlutdeild upp. Þá þarf að horfa til þess hvort við séum kannski að hefta að einhverju leyti atvinnuþróun. Nú eru menn að smíða beitningarvélar í minni báta svo að hægt sé að stokka upp um borð. Auðvitað viljum við ekki gera ráðstafanir sem hefta tæknilega þróun í minni bátum þar sem er mögulegt að hafa beitningarvélar um borð. Það er ekkert keppikefli í sjálfu sér að beitt sé í landi. Við þurfum að horfa til þess að fjölga störfum í sjávarbyggðum með tæknina að leiðarljósi. Ég held að við þurfum að skoða þetta allt í því samhengi. Það er enginn að tala um að eitthvað verði rifið frá mönnum án þess að þeir sjái þá fram á að annað komi í staðinn til að styrkja viðkomandi byggðir og sjávarútveg á svæðum vítt og breitt um landið sem hafa fyrst og fremst notið góðs af ráðstöfun á þessum hluta aflaheimilda, þessum 5,3%.

Eins og hefur komið fram þá áttum við þingmenn stjórnarandstöðunnar nokkra fundi með ráðuneytinu og starfsmönnum ráðuneytisins. Vissulega höfðum við tækifæri til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Ég vil samt undirstrika að þetta var ekki eins og ég lít á samráð þar sem tekið er tillit til sjónarmiða og tillagna frá minni hlutanum. Það var upplýst að fundirnir væru fyrst og fremst hugsaðir til upplýsingar. Menn hlustuðu á sjónarmið okkar sem vorum þarna í minni hlutanum en ekki var gefið í skyn að tekið yrði tillit til þeirra. Mér finnst sá munur á samráði og upplýsingafundi að í samráði vilja menn að tekið sé tillit til skoðana minni hlutans og þær finnist líka í þeim tillögum sem verið er að vinna og undirbúa. Við munum ræða þetta mál betur í atvinnuveganefnd í framhaldinu.