144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[13:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Nú ætla ég að byrja á því að segja að ég er almennt ekki hlynnt mörkuðum tekjum en þær hafa reynst nauðsyn í ýmsum tilfellum af því að löggjafinn treystir ekki sjálfum sér til að hugsa til langs tíma og standa við fyrirætlanir sínar. Hér er dæmi um slíkt, í 11. lið þingsályktunartillögunnar, þar sem segir:

„Tekjur sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli þessarar þingsályktunar renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.“

Ég er algerlega sammála þessari áherslu. Ég held að það sé mjög eðlilegt að tekjurnar af þessu, fyrst við erum með fyrirkomulag markaðra tekna, renni til byggðanna og er sammála því markmiði. En málinu er dreift seint og það er tekið inn með afbrigðum og ég er að reyna að fóta mig í þessu; þetta er nú ekki sú löggjöf sem ég kann hvað best í lagasafni Íslands, en þar er þetta reglugerðarheimild en ég sé hvergi vísan í reglugerð. Nú kann að vera, hefði ég haft lengri tíma, að ég hefði fundið einhverja reglugerð um það hvernig ráðherra á að gera þetta.

Mig langaði að spyrja þingmanninn, þetta er kannski ekki alveg sanngjörn spurning því að þetta er umfangsmikill lagabálkur, hvort hún viti hvort þessi reglugerð sé til og hvort hún þekki til hennar. Ég ætla að segja það líka sem leikmaður að það er mjög erfitt fyrir mig að átta mig á hvaða fjármuni við erum að tala um hérna. Því vil ég spyrja þingmanninn hvort hún viti hvort þessi reglugerð sé til. Ef hún veit um hana, spyr ég hvort hún sé sammála markmiðum hennar. Ég vil líka spyrja hvort hún sé ekki sammála því sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að það væri best að setja þessa fjármuni í sóknaráætlanir.