144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni fyrir skýra og mjög fróðlega ræðu. Ég tók eftir því í máli hans að hann er algerlega sammála því viðhorfi sem ég og fleiri tjáðum hér fyrr í þessari umræðu í dag um að þeim kvóta sem ráðstafað er til að auka byggðafestu, eins og það heitir í dag, sé greinilega betur varið í gegnum hina sérstöku aflahlutdeild sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar fremur en með hinum fyrra hætti í gegnum hinn almenna kvóta. Munurinn á þessu tvennu er sá að þessum sérstaka kvóta, sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar, úthlutar hún til fiskvinnslu eða tekur tillit til fiskvinnslu. Þetta er aðferð sem margir hafa verið að velta fyrir sér í gegnum tímann til að festa veiðiheimildir frekar við byggðirnar og hugsanlegt er að í árdaga hefði verið betra að fara þá leið til að koma í veg fyrir ýmsar hörmungar sem leitt hafa af því sem ég hef stundum kallað bakhlið eða skuggahlið kvótakerfisins. En spurning mín til hv. þingmanns er þessi:

Nú þegar flestir virðast vera þeirrar skoðunar að skammvinn reynsla af þessari tegund byggðakvóta sé mun betri en sú leið sem við höfum verið að nota, sem hefur falið í sér að ráðuneytið úthlutar á skip eftir umsóknum — þýðir það þá ekki að við eigum bara að slá af jafnvel þennan almenna kvóta og láta allt saman í gegnum þessa leið Byggðastofnunar? Er það bara ekki miklu farsælla til að vinna gegn þeim óæskilegu áhrifum sem við sjáum stundum brjótast fram og jafnvel ryðja burt helftinni á heilum byggðarlögum? Hvað segir hv. þingmaður um það?