144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tvöföldun á pottunum þá er það einfaldlega þannig, ég er ekki að tala um neina aukningu. Hver 5% sem þú setur í byggðakvóta kallar á önnur 5% á móti að minnsta kosti þannig. Þá erum við komnir með 10% því til að nýta byggðakvótann er gerð krafa um að landað sé öðru eins þannig að þar er í raun búið að tvöfalda það. Það er í rauninni það sem ég átti við með því.

Varðandi það að réttlæta bæturnar, þessar skelbætur, þá var þetta alltaf bráðabirgðaákvæði, það var alveg ljóst. Það sem ég á við er að þegar þessum skelbótum var úthlutað þá fórnuðu einhverjir, sumir og aðrir ekki, veiðiheimildum á móti. Það er það sem ég á við með því sem ekki lá alveg ljóst fyrir. Ef menn geta sýnt fram á það að þeir hafi lagt fram á — og það er sjálfsagt til, ég geri ráð fyrir að það séu einhverjir reglugerðir til um þetta þannig að þetta eigi að liggja einhvers staðar ljóst fyrir alla vega er hægt að sannreyna að komi það í ljós — að þeir aðilar sem hafa fórnað á móti þessum skelkvóta þá er ég alveg tilbúinn að skoða það en til þess þarf maður að sjá eitthvað alveg svart á hvítu.

Línuívilnunin er náttúrlega bara þjóðhagslega óhagkvæm eins og hún er því að hún er að koma á marga staði sem hafa ekki þörf á því, sem eru bara ágætlega staddir. Ef við ætlum að hafa þetta sem byggðaúrræði þá þurfum við bara að meta það. Að því leytinu til er ég alveg til í að skoða það.