144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi meðferð aflans þá bar vissulega á umræðu um það, sérstaklega á fyrsta árinu sem strandveiðarnar hófust. Þær hófust með skömmum aðdraganda, þeim var hrint af stað vorið 2009 og í einhverjum mæli voru menn vanbúnir, höfðu ekki komið sér upp nægjanlegum búnaði til þess að geta kælt aflann, ísað hann o.s.frv. En það er alveg samdóma álit manna að það hafi snarlagast og ég hef ekki heyrt mikla umræðu síðastliðin tvö, þrjú ár um að strandveiðiaflinn að breyttu breytanda gefi nokkuð eftir öðrum afla sem er veiddur á þessum árstíma og upp við ströndina. Auðvitað getur verið að einstöku sinnum sé fiskurinn sem tekinn er af grunnmiðunum ekki alveg af sömu gæðum og sá sem er tekinn dýpra úti, en það er þá ekki bundið við strandveiðar heldur almennt þá sem veiða á grunnslóðum. Þetta hefur stórlagast.

Varðandi arðsemina eins og hún er reiknuð þá velta menn náttúrlega fyrir sér ávöxtun eigin fjár og ávöxtun á þeim stofnkostnaði og búnaði sem er í greininni. Strandveiðarnar eru tiltölulega ungar. Í einhverjum mæli hafa menn verið að fjárfesta og koma sér upp búnaði til að stunda þær, þar af leiðandi er ekki líklegt að arðsemin verði mikil og ávöxtun þeirra fjármuna allra fyrstu árin.

Í þriðja lagi er þetta stundum búnaður sem menn eiga eða vilja nota hvort sem er til annars. Einhverjir af þessum bátum eru á grásleppuveiðum yfir veturinn. Það skiptir þá máli að geta haldið áfram og haft launatekjur af sumarveiðinni jafnvel þó að þeir hafi ekki mikið út úr því í viðbót við þær. Þetta er einyrkjastarfsemi, eigandi bátsins verður að vera um borð, það er eitt af skilyrðunum, og í raun og veru eru menn sæmilega sáttir ef þeir hafa sæmilegt kaup og ætlast ekkert endilega til mikillar ávöxtunar á fjármunum sem þeir eiga bundna í litlum báti, ég tala nú ekki um ef þeir nota hann til annarra hluta líka. Svo svara menn bara með fótunum ef svo má að orði komast. Menn mundu ekki vera að þessu ef þeir stórtöpuðu á því. Ég set því (Forseti hringir.) örlítið spurningarmerki við arðsemisútreikningana í ljósi þess hversu margir fara ár eftir ár á strandveiðar.