144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fer ekkert í launkofa með það að það sem ég teldi mjög æskilegt væri að stærri hluti þessara heimilda, og helst stærri pottur, færi annars vegar í byggðafestukvóta — þá í gegnum farveg Byggðastofnunar eins og hann er núna eða með öðrum leiðum sem menn fyndu til að auka byggðafestuna í kerfinu — og svo í strandveiðar, eða einhvers konar veiðar smærri báta á grunnslóðinni, hlúa að því sérstaklega. Auðvitað þarf að gera allar slíkar áherslubreytingar yfirvegað. Ég er ekki að tala fyrir neinni byltingu í þessu.

Ég er alveg sáttur við stefnuna sem í þessu er, sérstaklega hvað varðar það að auka svigrúm Byggðastofnunar. Það hefði glatt mig enn meira ef ég hefði séð strandveiðarnar fá hlutdeild líka þó að vissulega megi segja að ef myndarleg aukning verður í þorskkvótanum þá komi það til góða þessum hluta veiðanna eins og öðrum, þ.e. af því að 5,3% af hverri tegund fara í pottana. En það gengur auðvitað frekar hægt ef það er bundið við aukninguna eina og hún er ekki endilega í hendi um alla framtíð.

Ég tel að menn eigi jafnframt að hafa til skoðunar, til lengri tíma litið, þetta 5,3% viðmið og það er ekkert náttúrulögmál á bak við það. Ég spyr á móti: Ef við kæmumst nú að því — eftir vandaða kortlagningu og yfirlegu með hinum vísustu mönnum, Byggðastofnun og öðrum — að með 8% og þá tæpum 3% í viðbót, sem við værum að fá inn í þessar ráðstafanir, gætum við verulega aukið byggðafestuna í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið. Með því að festa í öllum minni og viðkvæmari sjávarbyggðum einhvern frumburðarkvóta þannig að menn hefðu á einhverju að byggja, jafnvel þótt gengi á ýmsu með stórútgerð og stærri (Forseti hringir.) rekstur á viðkomandi stöðum, væri það þá ekki til nokkurs vinnandi? Ættum við þá ekki að hugleiða það, þingmenn, að mjaka þessu kannski í áföngum á nokkrum árum úr 5,3% upp í 8%?